Fréttir

Hvað er að frétta?

Eftir Kristrún Birgisdóttir 1. apríl 2025
Í átta ár hefur skólastarf í Ásgarðsskóla - skóla í skýjunum verið í þróun. Árangurinn hefur verið frábær og vitnisburðir barna og aðstandenda þeirra einstaklega jákvæðir. Nú hefur Reykjavíkurborg einhliða og án nokkurs samráðs við Ásgarðsskóla ákveðið að beita sér gegn því að úrræðið fái að nýtast fleirum börnum í Reykjavík og hyggjast setja á fót sitt eigið. Að þróa vel heppnaðan skóla á netinu er ekki kökugerð sem gripin er með forskrift sem fæst í tilbúnum, ódýrum pakka sem hægt er að grípa uppi á hillu. Vel heppnaður fjarskóli fyrir börn, sem kerfin okkar hafa brugðist eða búa við flókinn vanda, verður til á löngum tíma, með færustu sérfræðingum og hópi fólks sem brennur fyrir nýsköpun og hefur eldmóð og þor til þess að hugsa út fyrir kassann. Ásgarðsskóli - skóli í skýjunum hefur verið í þróun sl. átta ár. Fyrstu nemendurnir voru nemendur í mjög fámennum skólum um landið og nemendur sem af fjölbreyttum ástæðum þurftu að stunda nám heima. Við einsettum okkur að átta okkur á þörfum nemendanna og finna leiðir til þess að mæta hverjum og einum á persónumiðaðan hátt, af skilningi og virðingu með því að fela þeim verkefni sem efldu þá hvern á sinn hátt án þess að gefa afslátt af kröfum aðalnámskrár. Þróunarskólaleyfið fyrir Ásgarðsskóla var í vinnslu í tvö ár frá árinu 2019 til 2021. Gögnin sem fylgdu umsókninni voru ítarleg og töldu á þriðja hundrað blaðsíðna. Leyfið fékkst loksins haustið 2021 og þá innrituðust tveir nemendur, sá þriðji bættist við um haustið. Samhliða gerðum við tilraunir með valgreinaskóla í fjarkennslu sem var samstarfsverkefni níu grunnskóla í jafnmörgum sveitarfélögum, flókið verkefni sem gekk bæði vel og illa en er nú fyrst og fremst starfrækt innan Ásgarðsskóla. Síðustu fjögur árin höfum við sem stöndum að Ásgarðsskóla þróað Tungumálaskólann sem er metnaðarfullt fjarkennsluúrræði þar sem við kennum nemendum með norsku og sænsku að móðurmáli. Ásgarðsskóli óx á grunni þessari fjölbreyttu reynslu en að þróuninni stóð teymi sem samanstendur af tuttugu innlendum og erlendum sérfræðingum sem hafa komið að málinu á einn eða annan hátt. Samanlagt hefur þessi reynsla og sérþekking gert Ásgarðsskóla að traustu námsumhverfi fyrir viðkvæma nemendahópa. Sérlega hefur verið vandað til með námskrána þar sem mjög fljótt kom á daginn að ríkjandi starfshættir henta þessum hópi nemenda engan veginn. Þess vegna var farin sú leið að fjárfesta verulega í ráðgjöf og aðgengi að erlendri námskrá frá Fieldwork education og þróa leiðir til að útfæra áherslur aðalnámskrár af sérstökum metnaði. Meginmarkmiðið var að finna leiðir til að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda á framúrskarandi hátt. Dýrmætt var einnig samstarfið og ráðgjöfin frá Sophia High í London sem er virkur og vel heppnaður breskur fjarskóli fyrir börn frá 4 ára aldri. Allir kennarar í Ásgarðsskóla fá sérstaka þjálfun í starfsháttum við að koma til móts við fjölbreytileikann og beita þeim aðferðum sem reynsla okkar hefur sýnt að virki. Nú erum við með þrautþjálfaðan kennarahóp sem er farinn að hækka rána enn meira og starfshættir hópsins eru komnir langt fram úr þeim væntingum sem við sáum fyrir okkur í upphafi. Á þriðja ári gerði mennta- og barnamálaráðuneytið úttekt á skólanum sem staðfestir að starfið í Ásgarðsskóla er vandað, þar er eftirtektarverð fagmennska í fyrirrúmi og nemendum mætt einstaklega vel. Umbótatillögur voru smávægilegar og hafa nú þegar verið uppfylltar. Kerfisbundið innra mat er í góðum farvegi og skólinn stendur fyrir lýðræðislegri samvinnu og samstarfi við foreldra sem hafa raunveruleg áhrif á alla þætti skólastarfsins, þar með talið útfærslur á námi og kennslu. Námsmat er gagnsætt, mjög reglulegt og unnið í samstarfi við nemendur og foreldrum sex sinnum á ári. Reykjavíkurborg hefur verið stærsti viðskiptavinur okkar sl. þrjú ár og hefur treyst okkur fyrir dýrmætum hópi nemenda sem hefur átt það sameiginlegt að úrræði sveitarfélagsins varðandi skólagöngu þeirra hafa verið komin á endastöð. Þegar við stóðum frammi fyrir því að þurfa að framlengja þróunarskólaleyfið frá mennta- og barnamálaráðuneytinu sendi þáverandi sviðsstjóri skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar ítarlegt bréf til ráðuneytisins þar sem hann lýsir þeim einstaka árangri sem Ásgarðsskóli hefur náð með þennan nemendahóp. Kannanir og samtöl við foreldra og nemendur staðfesta að langflestir hafa náð að fóta sig á ný og komið sér í félagslega virkni úti í samfélaginu, komist í framhaldsskóla þrátt fyrir að hafa verið búnir að missa trúna á skólagöngu og/eða fundið fjölina sína úti í samfélaginu. Mörg barnanna hafa fullyrt að skólinn hafi bjargað lífið þeirra og keppast um að segja frá því (sjá t.d. hér). Í desember s.l. stóðu yfir viðræður Ásgarðsskóla við Reykjavíkurborg þar sem fyrirhugað var að semja um fjölda nemenda sem skólinn gæti tekið við á komandi skólaári og finna leiðir sem báðir aðilar gætu fellt sig við. Tafir urðu á viðræðum enda skipt um æðsta mann í brúnni í desember og nýr sviðsstjóri hóf ekki störf fyrr en í byrjun febrúar á þessu ári. Við komumst þá í samband við Stein Jóhannsson sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs sem óskaði eftir að fá meiri tíma til þess að fóta sig í nýju starfi áður en viðræður okkar héldu áfram. Það varð hins vegar ekkert af þessum viðræðum þar sem skóla- og frístundasvið hefur greinilega verið upptekið við undirbúning þess að koma á fót netskóla í einum af grunnskólum borgarinnar. Samkvæmt bókun skóla- og frístundasviðs er fyrirhugað að skólastarf hefjist strax í haust fyrir öll börn í Reykjavík sem talin eru þurfa þessa þjónustu. Ég hef ekki allar forsendur til að leggja mat á hvernig ætlað er að koma upp umræddri starfsemi á svo stuttum tíma en til þess að koma á vel heppnuðu netúrræði er ekki nóg að kaupa áskrift að Zoom og hefjast handa. Tillaga Steins fyrir hönd sviðsins og greinargerð bendir til þess að fyrirhugað sé að fara kökugerðarleiðina. Verði það raunin, verður þá lagt af stað í vegferð sem getur ekki annað en verið óvönduð. Þróunarkostnaður við að teikna upp skólastarf sem fram fer í netheimum er mikill, kerfin eru dýr og þjálfun starfsmanna tekur gríðarlegan tíma og þolinmæði, samanber það sem ég hef nú þegar talið upp hér að ofan. Skólamenning og verkferlar áætlana uppi í skýjunum er áskorun sem erfitt er að setja sig inn í án þess að hafa reynt það. Það væri einnig fullkomlega óeðlilegt ef skóla- og frístundasvið gæti hafið slíkt þróunarstarf án þess að fullnægjandi námskrá, áætlanir og verklag sé ítarlega rökstutt og útfært samkvæmt stefnu slíks skóla og hvernig fyrirhugað er að ná árangri. Mennta- og barnamálaráðuneytið hlýtur að gera sömu kröfur til Reykjavíkurborgar og gerðar voru til okkar að þessu leyti. Athygli vekur að ekki hefur verið leitað til Ásgarðsskóla á neinn hátt í þessum undirbúningi, ekki óskað eftir að skoða útfærslur á samstarfi og samningi byggðum á þeirri vinnu ásamt kostnaðarliðum. Þrátt fyrir einstakan árangur og reynslu okkar af uppbyggingu Ásgarðsskólans hefur engin tilraun verið gerð til að óska eftir samstarfi eða viðræðum um þróun þessa fyrirhugaða úrræðis Reykjavíkurborgar. Við töldum að við myndum vinna áfram með 20-25 börn fyrir Reykjavíkurborg, jafnvel fleiri eftir að samningagerð lyki. Það kom því algjörlega flatt upp á okkur þegar fréttir vikunnar og bókun Skóla- og frístundasviðs bárust okkur til eyrna, því ekki fengum við neinar upplýsingar um þessi áform fyrr, þótt að verulega styttist í næsta skólaár. Þegar farið var að grennslast fyrir kom einnig í ljós að allar umsóknir foreldra um skólavist í Ásgarðsskóla hefðu verið stoppaðar og má af því merkja að beina eigi öllum nemendum Reykjavíkurborgar í nýja úrræðið. Við verðum að setja veruleg spurningamerki við slíka starfshætti. Fyrir jafn viðkvæman nemendahóp og sérhæfðan málaflokk þarf að vanda betur vel til verka. Við höfum lagt okkur fram um að vanda inntöku nemenda, vera þess fullviss að skólinn væri heppilegt úrræði fyrir viðkomandi og að öll í umhverfi nemandans væru sammála því. Um það bil 17 nemendur af 50 eru með farsældateymi í kringum sig og fá að auki stuðning frá sérfræðingum skólans. Samstarf við nærumhverfi barnanna er stöðugt, ítarlegt og metnaðarfullt og á þetta við um öll börnin sem þess þurfa. Ásgarðsskóli er með skrifstofu í Reykjavík, þangað koma foreldrar af suðvesturhorninu, fá aðstoð og kennarar hitta nemendur í persónulegu umhverfi þegar á þarf að halda. Staðlotur eru reglulegar þar sem nemendur og kennarar hittast til að efla félagsleg tengsl. Rökin um að Reykjavíkurborg verði að veita þjónustuna í sínu nærumhverfi, með vísan í að Ásgarðsskóli sé ekki fær um það, standast því ekki. Skiljanlegra væri ef Reykjavíkurborg ætlaði sér að bjóða upp á einhverskonar blöndu af stað- og fjarnámi fyrir yngri nemendur og þau sem sýna byrjunareinkenni skólaforðunar og ef ljóst er í hvað stefnir. En eins og gögnin líta út, sem lögð voru fram í vikunni í skóla- og frístundaráði, sé ég ekki betur en að fyrirhugað sé að öll börn borgarinnar eigi að fara í nýja úrræðið hvort sem þau eru nú þegar t.d. nemendur í Ásgarðsskóla eða ekki. Þetta er að vísu aðeins lestur milli lína í fundargerð, en þar sem skóla- og frístundasvið hefur dregið á langinn öll samtöl við Ásgarðsskóla um áframhald okkar verulega árangursríka samstarfs höfum við ekki aðrar upplýsingar. Ef foreldrar eða barnavernd óska eftir að unglingar í Reykjavík fái að njóta skólavistar í Ásgarðsskóla væri það óskiljanlegt með öllu ef Reykjavíkurborg tæki ákvörðun um að banna val milli Ásgarðsskóla og nýja úrræðisins. Mikið hefur verið skrifað um vanda grunnskólanna í Reykjavíkurborg. Ég vona að fyrirhugað netúrræði borgarinnar verði ekki til þess að börnum í tuga eða hundraðatali verði gert að sitja heima og þau fjarlægð úr skólunum vegna þess að þar séu kennarar og skólastjórnendur bugaðir á ástandinu. Við viljum benda á þær alvarlegu afleiðingar sem geta orðið ef kastað er á glæ þeim lífsbjargandi árangri sem hefur náðst með nemendum okkar. Ég biðla til ykkar sem að málinu koma að ígrunda málið vel áður en lokaákvörðun verður tekin um að útiloka Ásgarðsskóla sem úrræði. Reikningsdæmið eins og það er sett upp í greinargerð málsins stenst ekki, ég get fullyrt það. Við erum búin að fjármagna þróunina, hún er verulega sérhæfð og metnaðarfull og það mun taka ykkur mörg ár og kosta margfaldar þessar 60 milljónir sem þið teljið að námið muni kosta. Það er fullkomlega óraunhæft að sú upphæð verði heildarkostnaðurinn, þ.e.a.s ef fyrirhugað er að ná árangri. Við höfum verið með þrjá kennara, skólastjóra, námskrárstjóra, náms- og starfsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðing, fjármálastjóra og sálfræðing og auk þess sérstakan starfsmann sem skrifar námsefni fyrir hópinn út frá námskránni. Þar að auki höfum við bæði þróað sjálf og tryggt okkur aðgengi að sérþekkingu og efni sérhæfðu fyrir fjarskóla. Við höfum aldrei innheimt hjá Reykjavíkurborg aukaframlag vegna sérfræðiþjónustu heldur séð um hana alla sjálf, þrátt fyrir að við hefðum skýran rétt á því að fá þann kostnað greiddan. Án efa hafa þeir skjólstæðingar okkar verið í raun mun kostnaðarsamari fyrir sveitarfélögin en einfaldir meðaltalsútreikningar í umræddri greinargerð virðast byggja á. Ásgarðsskóli hefur útvegað börnum tölvur og heyrnartól og skólabúning og greitt fyrir reglulegar staðlotur, efniskostnað og það sem til þarf. Enginn aukakostnaður hefur fallið á foreldra . Allt þetta er ótalið í „servéttu“ útreikningunum borgarinnar sem fylgja greinargerðinni. Stefna, sýn og helstu verkþættir eru jafnframt alveg óljós í greinargerðinni. Ásgarður skólaráðgjöf hefur árum saman reynt að opna augu íslenskra sveitarfélaga fyrir því að viðkvæmustu skjólstæðingum skólakerfisins verður að mæta með fjölbreyttari og mun metnaðarfyllri hætti en löngum hefur verið gert, ekki bara í Ásgarðsskóla heldur í öllum skólum landsins. Rúmlega 20 sveitarfélög hafa treyst okkur fyrir sínum viðkvæmustu nemendum með skólavist í Ásgarðsskóla. Við fögnum því aukinni athygli Reykjavíkurborgar á málaflokknum og viðurkenningu á því sem Ásgarðsskóli hefur barist fyrir. Við erum stolt af okkar hugsjón og árangri og skorum eindregið á skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar að vinna af heilindum að áframhaldandi samstarfi við Ásgarðsskóla í stað þess að kippa einhliða undan þeim stoðum sem rekstur og starfsemi skólans byggist á og útlit er fyrir nú. Bkv. Kristrún Lind Birgisdóttir Skólastjóri og eigandi Ásgarðs - skóla í skýjunum og Ásgarðs skólaráðgjafaþjónustu S: 8999063 - www.asgardsskoli.is Hafnarstræti 49 600 Akureyri Gögn https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-03-27-skola-og-fristundarad-reykjavikur-samthykkir-tilraunaverkefni-um-fjarnam-i-grunnskolum-439972 https://reykjavik.is/fundargerdir/skola-og-fristundarad-fundur-nr-289 https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/289_5.1%20Tillaga%20um%20fjarkennslu%20%C3%AD%20grunnsk%C3%B3la.pdf https://www.visir.is/g/20252707777d/sjalfstaedir-grunnskolar-i-haettu
Eftir Kristrún Birgisdóttir 7. mars 2025
Á undanförnum árum höfum við hjá Ásgarð skólaráðgjöf unnið að því að skapa vettvang fyrir faglega umræðu um menntamál með því að gefa út Hlaðvarp Ásgarðs um menntamál. Hingað til höfum við gefið út 19 þætti, þar sem megin þemað hefur verið gæðamál. Þættirnir eru því oft og sérstaklega nýjustu sex þættirnir byggðir á viðmiðum um gæðastarf og eru hannaðir til að styðja kennara, skólastjórnendur og aðra sem starfa í menntakerfinu við að þróa og bæta skólastarf. Í þáttunum ræðum við við gesti og ráðgjafa Ásgarðs, sem veita innsýn í lykilhugtök og aðferðir sem styðja við markvissa og árangursríka skólaþróun. Við höfum lagt ríka áherslu á að tengja umræðuna við praktískar lausnir og reynslu úr vettvangi skólastarfs, þannig að hlustendur geti nýtt sér þekkinguna í eigin starfi. Hlaðvarpsþættirnir fjalla meðal annars um: Viðmið um gæðastarf - hvað einkennir góðan skóla og hvernig getum við unnið markvisst að umbótum? Nemendamiðað nám – aðferðir sem styrkja þátttöku og ábyrgð nemenda á eigin námi. Leiðsagnarmat og námsmat – hvernig við metum nám og framfarir á árangursríkan hátt. Faglegt lærdómssamfélag – hvernig kennarar og starfsfólk geta unnið saman að betri menntun og auknum gæðum í leik- námi og kennslu. Hagnýtar lausnir í skólastarfi – leiðir til að innleiða nýjar aðferðir í skólastarfi með áherslu á að deila reynslu og áætlunum sem nýtast í starfi. Hlaðvarpið hefur verið frábær leið til að miðla þekkingu og viðbrögðin hafa verið góð! Markmið okkar er að halda áfram að efla þessa umræðu og bjóða hlustendum upp á dýrmæt sjónarhorn og hagnýt ráð. 📢 Fylgstu með nýjustu þáttunum hér , allt telur þetta sem endurmenntun í starfi!
Eftir Kristrún Birgisdóttir 7. febrúar 2025
Landshlutaflakkið heldur áfram, en viðfangsefni grunnskólanna eru þau sömu um allt land. Í síðustu viku ræddum við tækifæri í Fjallabyggð til að sameina endurskoðun á viðmiðum aðalnámskrár, og í þessari viku var röðin komin að Bolungarvík. Báðir skólarnir hafa lengi unnið með námsvísa sem leiðarljós í skipulagningu kennslu. Við ræddum ýtarlega möguleikana á að sameina þessa vinnu – að innleiða ný hæfniviðmið og endurskoða skólanámskrárgerðina samhliða, með sérstaka áherslu á gæðanámsmat. Virkilega spennandi! Góð skólanámskrá þarf að vera vel ígrunduð og skiljanleg öllum sem koma að skólastarfinu. Námsumsjónarkerfi þurfa að styðja við ferlið, og hverjum þræði skólanámskrárinnar þarf að fylgja eftir. Það er því upplagt að slá tvær flugur í einu höggi. Þetta er þó alls ekki einfalt – mikilvægt er að taka skynsamlegar ákvarðanir í upphafi og gefa sér nægan tíma til að innleiða breytingarnar vandlega. Það eru margar leiðir til að hefja og vinna innleiðingarferlið. Gæðaráð undir forystu skólastjórnenda ásamt markvissu samráði eru lykillinn að góðum árangri. Hér má sjá mynd sem var teiknuð í Bolungarvík á þriðjudaginn – fyrstu tilraun til að kortleggja þá vinnu sem framundan er við að betrumbæta skólanámskrána og byggja á traustum grunni þeirrar reynslu sem þegar hefur skapast. Öllum er velkomið að nýta sér myndina og lesa úr henni! 😊
Eftir Kristrún Birgisdóttir 7. febrúar 2025
Í Naustaskóla er kennarateymi sem kennir 4. og 5. bekk. Teymið, þær Sunna, Þórey, Hrönn og Kristín hófu í haust að vinna eftir skipulagi um daglega ritun sem unnið er upp úr Ritunarramma Miðstöð menntunar og þjónustu (óbirt drög, 2024). Innra mats teymi Naustaskóla hafði komist að þeirri niðurstöðu að mikilvægt væri að skoða hvernig hægt væri að styðja kennara betur í að fóta sig í þeim kröfum sem birtast í ritunarrammanum og tryggja að nemenedur myndu fást við þær áskoranir sem þar birtast. Kennarateymið í 4. og 5. bekk buðu sig fram við að prófa að vinna með ritunarverkefnin og hafa gert svo frá skólabyrjun í haust. Ritunarverkefnin eru hluti af daglegu starfi, þó að eitthvað hafi þurft að aðlaga þau. Þær hafa þó unnið nánast öll verkefnin samkvæmt áætlun. Í ársskipulagi ritunar, sem fylgir kröfum ritunarrammans, er lögð áhersla á fjölbreytni og unnið með ólíkar tegundir texta, svo sem sögugerð, fræðitexta og rökfærslutexta. Nemendur semja ljóð, taka viðtöl, vinna með yndislestur í gegnum bókaklúbb og margt fleira. „Mánudagsritun“ er fastur liður og hefur leitt til augljósra framfara hjá öllum nemendum, allt frá greinilegum til mikilla framfara. Nemendur eru stoltir af verkefnum sínum, og kennarateymið leitar stöðugt nýrra leiða til að styðja ritun og málfræði í gegnum þessi verkefni. Kennarahópurinn var sammála um að það væri gríðarlega mikill tímasparnaður og öryggi sem fylgdi því að hafa aðgang að svo viðamiklu skipulagi sem þær geti treyst að standist kröfur. Þær tóku fram að þær upplifðu að verkefnin væru krefjandi en þær nýttu sér það til þess að efla hvor aðra sem fagmenn sem skilaði sér í metnaði til þess að setja sig inn í t.d. ljóðagerð og kveðskap! Ein mikilvægustu gæða einkenni teymiskennslu eru að kennarar lyfti hvort öðru upp og efli fagmennskuna - það er greinilega að eiga sér stað í þessu fyrirmyndar kennarateymi. Að sögn kennaranna hafa nemendur algjörlega blómstrað í skapandi vinnu með ritunarverkefni, þær njóta þess að fylgjast með þeim tjá sig á fjölbreyttan hátt og blása út af stolti af eigin verkefnum. Næstu skref hjá hópnum er að efla sig enn frekar í að veita nemendum endurgjöf og endurskipuleggja og samræma útfærslur á stílabókunum sjálfur og velja stærðir og gerðir við hæfi verkefnanna. Við fáum að heyra meira frá Naustaskólateyminu þegar þær koma í heimsókn í hlaðvarpsþáttinn okkar. Í mars kemur út ný sería af þáttum á hlaðvarpi Ásgarðs um menntamál þar sem lögð verður áhersla á gæðamál í menntakerfinu. Ritunarverkefnin - ársskipulag um ritun er aðgengilegur öllum kennurum hér fyrir yngsta, mið- og unglingastig Kristrún
Eftir Kristrún Birgisdóttir 31. janúar 2025
Verkefnin okkar eru margskonar og stundum snúast þau um að hjálpa kennurum að tryggja gæðanám og kennslu í einstaka skólum. Í Kirkjubæjarskóla á Síðu eru allir sem kenna þar að fá einstaklingsbundna ráðgjöf til að auka gæði í eigin kennslu frá ráðgjafa okkar hjá Ásgarði. Það er m.a. gert með því að ræða við starfsfólkið um áherslur þeirra fyrir kennsluna, við nemendur og stuðningsaðila. Þannig fæst heildarmynd sem hægt er að vinna áætlanir út frá. Ráðgjafi er að vinna að því með kennurum að skipuleggja námið og kennsluna fram á vor með áherslu á leiðsagnarnám og með því að vinna námsvísa sem hjálpa til við að halda fókus á því sem ákveðið hefur verið að vinna með. Í dagsins önn getur verið erfitt fyrir kennara að finna tíma í svona vinnu, en með aðstoð ráðgjafans verður það léttara. Starfsfólk skólans er líka byrjað að nýta aðeins verkefnin á Námsgagnatorginu í gegnum Askinn. Það hjálpar mikið þegar kemur að skipulagi starfsins, enda öll markmið ferlana sem þar eru, vel skilgreind sem og tengingar þeirra við markmið menntayfirvalda. Það er virkilega gaman að fá að kynnast starfsfólki skólanna og að fá tækifæri til að aðstoða þau við að tryggja gæði í eigin starfi. Anna María
Eftir Kristrún Birgisdóttir 26. janúar 2025
Síðustu tíu dagar hafa verið annasamir eins og oft er á þessum tíma árs hjá ráðgjöfum Ásgarðs. Gunnþór og Kristrún hófu þetta landshlutaflakk á heimsókn í Húnaþingi vestra en þar fer skólastarf sveitarfélagsins fram á Hvammstanga. Upptökusvæði nemenda er víðfemt og skólaakstur umtalsverður. Þegar við heimsóttum grunnskólann sátu einir tíu nemendur heima vegna veðurs og ófærðar og komust ekki í skólann. Grunnskólinn er í glæsilegu nýbyggðu og endurnýjuðu húsnæði og við hliðina á skólanum er íþróttahús og sundlaug. Á sama blettinum er leikskólinn Ásgarður en þar nýta nemendur sér að fara reglulega í íþróttahúsið og í heimsóknir í skólann. Í grunnskólanum hófst dagurinn á söngstund á sal með um 60 nemendum yngsta og miðstigsgrunnskólans þar sem spilað var undir á píanó og kontrabassa! Við hittum fyrir þaulreyndan smíðakennara sem hefur árum saman unnið með nýsköpun í skólastarfi sem sýndi okkur smíðaverkefni þar sem unnið er með rafmagn og smíðar. Mjög spennandi. Fórum í innlit í alla árganga og áttum góð samtöl við nemendur og starfsfólk um skólastarfið. Í leikskólanum voru börnin við leik og störf þar sem leikurinn var auðvitað allsráðandi inni og úti. Nemendur fóru í hópastarf og valstund og léku sér í ýmsum leikjum með alls konar efnivið. Markmið heimsóknar var að skima alla þætti skólastarfsins og aðstoða skólana við að koma auga á gæðastarf og í senn tækifæri til umbóta sem auka enn frekar á faglegt og skapandi starf út frá skýrum viðmiðum og tengingum við menntastefnu. Á Stykkishólmi lá leiðin í Grunnskólann í Stykkishólmsólmi. Hólmurinn skartaði sínu fegursta og það gerðu krakkarnir og starfsfólkið í skólanum líka. Við fengum tækifæri til þess að sjá hið víðfræga Legó safn skólans en í Landanum 8. des. var fjallað um hvernig LEGO er notað í námi í skólanum eins og sjá má hér https://www.ruv.is/.../landinn/37025/b1348q/kubb-fyrir-kubb - alveg hreint til fyrirmyndar. Að læra í gegnum leik er ein ódýrasta og skemmtilegasta kennsluaðferðin sem til er og hentar öllum nemendum þar sem hver og einn getur þróað sitt sérsvið og hægt er að prjóna við samþættingu úr öllum námsgreinum. Leiðsagnarnám er áberandi á unglingastiginu og námsmarkmið og viðmið um árangur mjög greinileg í starfi nemendanna. Síðasti viðkomustaður á þessu landshlutaflakki var heimsókn í Vesturbyggð. Húnaþing vestra og Stykkishólmur eru nýir viðkomustaðir ráðgjafanna en aftur á móti hafa ráðgjafar Ásgarðs heimsótt Vesturbyggð sl. 8 ár hvorki meira né minna. Í Vesturbyggð eru þrír grunnskólar, Bíldudalsskóli, Grunnskóli Tálknafjarðar og Patreksskóli. Þessir þrír skólar hafa unnið eftir sameiginlegum námsvísi í nokkur ár og nú eru kennararnir að undirbúa að endurskoða námsvísana útfrá nýjum og endurskoðuðum viðmiðum aðalnámskrár. Samhliða fer fram innleiðing og þróun á sameiginlegri námsmatsstefnu sveitarfélagsins þar sem sérstaklega er unnið að því að kortleggja grunnfærni nemenda í stærðfræði og læsi útfrá matskvörðum sveitarfélagsins.
Eftir Kristrún Birgisdóttir 22. janúar 2025
Að koma auga á góð, skapandi, samþætt verkefni nemenda er mikilvægt í skólastarfi. Í starfi okkar ráðgjafanna sjáum við bæði vel útfærð verkefni og verkefni sem mætti útfæra miklu betur. Það er til dæmis algengur misskilningur að það að skipta nemendum í hópa með bækur í mismunandi greinum í sömu kennslustundinni sé góð samþætting. Það er í raun ekki samþætting, heldur nemendur að vinna með fleiri en eina námsgrein í sömu kennslustundinni. Samþætting námsgreina felur í sér að tengja saman tvær eða fleiri námsgreinar í kennslu með það að markmiði að skapa heildstæðara og merkingarbærara nám fyrir nemendur. Með því að samþætta námsgreinar fá nemendur tækifæri til að sjá tengsl milli ólíkra fræðasviða og skilja efnið í víðara samhengi. Þetta getur aukið áhuga þeirra og stuðlað að dýpri skilningi. Aðalnámskrá grunnskóla leggur áherslu á samþættingu námsgreina og hvetur til þess að kennarar nýti fjölbreyttar kennsluaðferðir til að mæta ólíkum þörfum nemenda. Með því að samþætta námsgreinar er hægt að gera námið merkingarbærara fyrir nemendur og skýra samhengi mismunandi fræðasviða. Samþætting námsgreina hefur marga kosti, þar á meðal að auka áhuga nemenda, stuðla að dýpri skilningi og efla hæfni þeirra til að tengja saman ólíka þekkingu. Þetta getur einnig undirbúið nemendur betur fyrir framtíðina þar sem þeir þurfa að takast á við flókin verkefni sem krefjast þverfaglegrar nálgunar. Föstudaginn 16. janúar voru nokkrir ráðgjafar og starfsmenn Ásgarðs og Ásgarðsskóla viðstödd kynningu nemenda á heimsreisu þar sem nemendur höfðu gert eigin ferðaáætlanir um víða veröld með upplýsingum um fræðandi staði, skemmtun, gistingu og veitingar, auk fjárhagsáætlunar, og myndskreytt allt ríkulega. Á innan við klukkustund fengum við innsýn í hvað væri gaman að gera í Indónesíu, Nýja Sjálandi, Mexíkó, Austurríki og fjölda annarra landa. Öllum heimsreisunum fylgdi fjárhasáætlun yfir heildarkostnað ferðarinnar. Hér var verið að samþætta samfélagsfræði, ensku, íslensku, stærðfræði og upplýsingamennt í einu verkefni. Verkefnið er skapandi, þ.e. það er unnið með ákveðinn ramma en nemendur fá að velja útfærslur á skýru ferli sem hefur upphaf, miðju og endi. Krakkarnir stóðu sig skínandi vel og það mátti sjá greinilega hvernig verkefnið var skipulagt og útfært þannig að sumir nemendur unnu með einfaldari útfærslur miðað við sína getu á meðan aðrir fóru mun lengra og dýpra inn í verkefnið. Alveg til fyrirmyndar! Kristrún Heimildir: Aðalnámskrá grunnskóla. (e.d.). Skólanámskrá Egilsstaðaskóla. Sótt frá https://www.egilsstadaskoli.is/is/skolinn/skolanamskra/skolastefna/kennsluhaettir/samthaetting Menntavísindastofnun. (e.d.). Samþætting námsgreina: Skapandi nám og teymiskennsla. Sótt frá https://menntavisindastofnun.hi.is/is/samthaetting-namsgreina-skapandi-nam-og-teymiskennsla Skemman. (2011). Samþætting náms. Sótt frá https://skemman.is/bitstream/1946/9369/1/samthaetting.pdf Skemman. (2021). Samþætting náms og samvinna kennara í grunnskólum. Sótt frá https://skemman.is/bitstream/1946/39741/4/B.Ed%20lokaverkefni%20-%20SSS.pdf
Eftir Kristrún Birgisdóttir 14. janúar 2025
Starfsemi Ásgarðsskóla hefur vakið athygli víða og hefur vakið athygli bæði innan lands sem utan. Það eru ekki allir sem átta sig á því að Ásgarður skólaráðgjöf er eitt en Ásgarðsskóli er annað - en fyrirtækin eru systurfyrirtæki og eru eðlilega í miklu samstarfi. Fyrirtækin eru stofnaðilar að Fjarska (fjarski.is) sem eru samtök um fjarnám og stafræna kennsluhætti. Samtökin voru stofnuð 12. júní 2024 sem vettvangur fyrir innlegt og alþjólegt samstarf um þekkingu, rannsóknir og þróun á sviði fjarnáms og stafrænna kennsluhátta. Allir sem vilja vinna að markmiðum samtakanna geta gerst félagar. Markmið Fjarska eru að efla skilning á fjarnámi, auka gæði þess, framboð og stuðla að þróun stafrænna kennsluhátta með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Fyrsti viðburður ársins hjá Fjarska er kynning á starfsemi Ásgarðsskóla. Tinna Pálsdóttir námskrárstjóri sér um kynninguna sem fram fer á Zoom þann 30. janúar næstkomandi kl. 15.00 til 15.45. Fyrirlesturinn er liður í námi kennaranema við Menntavísindasvið Háskóla Íslands en öll velkomin að fylgjast með í fjar. Hllökkum til að sjá sem flest! ------------- Dagsetning og tími: 30. janúar kl. 15.00 til 15.45 Staður/fjar: Útsending og fyrirlestur hjá Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Streymi í Zoom frá HÍ. Bæta í Google dagatal - Smella hér. Facebook viðburður - Smella hér. Markhópur Kennarar, kennaranemar, foreldrar og aðrir áhugasamir um skólaþróun. Dagskrá fyrirlestrarins Kynning – 15.00 til 15.30 Spurningar – 15.30 til 15.45
Eftir Kristrún Birgisdóttir 10. janúar 2025
Mikið af starfsemi rágjafanna fer fram á netfundum. Oft er það svo að við vinnum jafnvel árum saman með starfsfólki sveitarfélaganna án þess að hitta fólk í raunheimum. Góð tengsl myndast þrátt fyrir það! Eitt af reglubundnum verkefnum er að hitta svokallaða fræðslustjórn Strandabyggðar. Fræðslustjórn er hugtak sem í er líklega ekki notað víða en fulltrúar sveitarfélagsins vildu koma á samfelldu skipulögðu gæðastarfi með því að sauma betur saman starfshætti fræðslunefndarinnar og skólans. Þannig varð til fræðsluráð sem samanstendur af sveitarstjóranum, skólastjóranum og a.m.k einum ráðgjafa frá Ásgarði. Saman vinnur fræðsluráðið að því að framfylgja starfsáætlun fræðslunefndar, framkvæma og betrumbæta í leiðinni. Áhersla er lögð á að ákvarðanir séu teknar út frá gögnum og gæðaviðmiðum. Þetta fyrirkomulag hefur reynst afar vel og bæði náttúrulegt og eðlilegt að vinna saman í teymi af þessu tagi. Verkefnin sem ákveðin eru í fræðslustjórn deilast á skólastjóra, sveitarstjóra og fræðslunefnd. Skólastjóri heldur utanum umbótaáætlun leik- og grunnskólanna og heldur starfsfólki og kennurum upplýstum. Þannig haldast öll verkefni á hreyfingu og mælikvarðar skoðaðir reglulegar. Ef vel er að gáð sést glitta í bakgrunninum á myndinni hér fyrir neðan á verkefnalistann sem er kerfisbundið haldið utanum með litakóðuðu kerfi sem tengist dagatölum og þeim skjölum sem eru í vinnslu. Vel gert Strandabyggð!
Eftir Kristrún Birgisdóttir 10. janúar 2025
Skemmtilegur dagur að baki í Fjarðabyggð með skólastjórnendum grunnskólanna í Fjarðabyggð sem vilja samræma betur verklag og starfshætti við innra mat skólanna í sveitarfélaginu. Í Fjarðabyggð eru fimm grunnskólar fyrir börn á grunnskólaaldrinum sex til fimmtán ára. Skólarnir eru Nesskóli í Neskaupstað, Grunnskóli Eskifjarðar, Grunnskóli Reyðarfjarðar, Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóli. Í Mjóafirði er rekin grunnskóladeild sem útibú frá Nesskóla. Í stjórnendahópnum eru reynslumiklir stjórnendur í bland við reynsluminni eins og gengur og gerist. Í ljós kom að í hópnum er stjórnandi sem hefur meðal annars reynslu af því að taka þátt í að innleiða gæðastaðla bæði í framhaldsskóla og í alþjóðlegum grunnskóla. Alþjóðlegu úttektirnar eru þekktar fyrir að vera afar ítarlegar og kafað er djúpt í alla liði skólastarfsins. Góð þekking á innleiðingu gæðastarfs með gæðastöðlum er afar dýrmætt þegar verið er að skipuleggja verklag um innra mat í heilu sveitarfélagi. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðgjafar Ásgarðs fá að styðja við teymi stjórnenda þar sem reynsla stjórnenda nær útfyrir reynslu af gæðastarfi á Íslandi sem verður afar dýrmætt. Áskoranir fjölkjarna skólasamfélaga eru miklar en með því að nýta tæknina og efla skapandi hugsun er hægt að ná árangri og að mati þessa hóps telja þau að hópurinn muni nái meiri árangri saman. Meginverkefnið er að samræma og stilla af allt verklag um innra mat, langtímaáætlanir, ársáætlanir um innra mat, matsaðferðir og framsetningu á innra mati. Það verður spennandi að fá að fylgja þessu verkefni og draga fram styrkleika hvers og eins stjórnenda í þessu skemmtilega verkefni. Myndin er tekin á skrifstofu fjölskyldusviðs Reyðarfjarðar.
Sækja fleiri fréttir

Skráðu þig á póstlista

Smella hér!
Share by: