Eftir Kristrún Birgisdóttir
•
7. mars 2025
Á undanförnum árum höfum við hjá Ásgarð skólaráðgjöf unnið að því að skapa vettvang fyrir faglega umræðu um menntamál með því að gefa út Hlaðvarp Ásgarðs um menntamál. Hingað til höfum við gefið út 19 þætti, þar sem megin þemað hefur verið gæðamál. Þættirnir eru því oft og sérstaklega nýjustu sex þættirnir byggðir á viðmiðum um gæðastarf og eru hannaðir til að styðja kennara, skólastjórnendur og aðra sem starfa í menntakerfinu við að þróa og bæta skólastarf. Í þáttunum ræðum við við gesti og ráðgjafa Ásgarðs, sem veita innsýn í lykilhugtök og aðferðir sem styðja við markvissa og árangursríka skólaþróun. Við höfum lagt ríka áherslu á að tengja umræðuna við praktískar lausnir og reynslu úr vettvangi skólastarfs, þannig að hlustendur geti nýtt sér þekkinguna í eigin starfi. Hlaðvarpsþættirnir fjalla meðal annars um: Viðmið um gæðastarf - hvað einkennir góðan skóla og hvernig getum við unnið markvisst að umbótum? Nemendamiðað nám – aðferðir sem styrkja þátttöku og ábyrgð nemenda á eigin námi. Leiðsagnarmat og námsmat – hvernig við metum nám og framfarir á árangursríkan hátt. Faglegt lærdómssamfélag – hvernig kennarar og starfsfólk geta unnið saman að betri menntun og auknum gæðum í leik- námi og kennslu. Hagnýtar lausnir í skólastarfi – leiðir til að innleiða nýjar aðferðir í skólastarfi með áherslu á að deila reynslu og áætlunum sem nýtast í starfi. Hlaðvarpið hefur verið frábær leið til að miðla þekkingu og viðbrögðin hafa verið góð! Markmið okkar er að halda áfram að efla þessa umræðu og bjóða hlustendum upp á dýrmæt sjónarhorn og hagnýt ráð. 📢 Fylgstu með nýjustu þáttunum hér , allt telur þetta sem endurmenntun í starfi!