Að koma auga á góð, skapandi, samþætt verkefni nemenda er mikilvægt í skólastarfi. Í starfi okkar ráðgjafanna sjáum við bæði vel útfærð verkefni og verkefni sem mætti útfæra miklu betur. Það er til dæmis algengur misskilningur að það að skipta nemendum í hópa með bækur í mismunandi greinum í sömu kennslustundinni sé góð samþætting. Það er í raun ekki samþætting, heldur nemendur að vinna með fleiri en eina námsgrein í sömu kennslustundinni.
Samþætting námsgreina felur í sér að tengja saman tvær eða fleiri námsgreinar í kennslu með það að markmiði að skapa heildstæðara og merkingarbærara nám fyrir nemendur. Með því að samþætta námsgreinar fá nemendur tækifæri til að sjá tengsl milli ólíkra fræðasviða og skilja efnið í víðara samhengi. Þetta getur aukið áhuga þeirra og stuðlað að dýpri skilningi.
Aðalnámskrá grunnskóla leggur áherslu á samþættingu námsgreina og hvetur til þess að kennarar nýti fjölbreyttar kennsluaðferðir til að mæta ólíkum þörfum nemenda. Með því að samþætta námsgreinar er hægt að gera námið merkingarbærara fyrir nemendur og skýra samhengi mismunandi fræðasviða.
Samþætting námsgreina hefur marga kosti, þar á meðal að auka áhuga nemenda, stuðla að dýpri skilningi og efla hæfni þeirra til að tengja saman ólíka þekkingu. Þetta getur einnig undirbúið nemendur betur fyrir framtíðina þar sem þeir þurfa að takast á við flókin verkefni sem krefjast þverfaglegrar nálgunar.
Föstudaginn 16. janúar voru nokkrir ráðgjafar og starfsmenn Ásgarðs og Ásgarðsskóla viðstödd kynningu nemenda á heimsreisu þar sem nemendur höfðu gert eigin ferðaáætlanir um víða veröld með upplýsingum um fræðandi staði, skemmtun, gistingu og veitingar, auk fjárhagsáætlunar, og myndskreytt allt ríkulega. Á innan við klukkustund fengum við innsýn í hvað væri gaman að gera í Indónesíu, Nýja Sjálandi, Mexíkó, Austurríki og fjölda annarra landa. Öllum heimsreisunum fylgdi fjárhasáætlun yfir heildarkostnað ferðarinnar. Hér var verið að samþætta samfélagsfræði, ensku, íslensku, stærðfræði og upplýsingamennt í einu verkefni. Verkefnið er skapandi, þ.e. það er unnið með ákveðinn ramma en nemendur fá að velja útfærslur á skýru ferli sem hefur upphaf, miðju og endi.
Krakkarnir stóðu sig skínandi vel og það mátti sjá greinilega hvernig verkefnið var skipulagt og útfært þannig að sumir nemendur unnu með einfaldari útfærslur miðað við sína getu á meðan aðrir fóru mun lengra og dýpra inn í verkefnið.
Alveg til fyrirmyndar!
Kristrún
Heimildir:
Aðalnámskrá grunnskóla. (e.d.). Skólanámskrá Egilsstaðaskóla. Sótt frá https://www.egilsstadaskoli.is/is/skolinn/skolanamskra/skolastefna/kennsluhaettir/samthaetting
Menntavísindastofnun. (e.d.). Samþætting námsgreina: Skapandi nám og teymiskennsla. Sótt frá https://menntavisindastofnun.hi.is/is/samthaetting-namsgreina-skapandi-nam-og-teymiskennsla
Skemman. (2011). Samþætting náms. Sótt frá https://skemman.is/bitstream/1946/9369/1/samthaetting.pdf
Skemman. (2021). Samþætting náms og samvinna kennara í grunnskólum. Sótt frá https://skemman.is/bitstream/1946/39741/4/B.Ed%20lokaverkefni%20-%20SSS.pdf