Eftir Kristrún Birgisdóttir
•
7. febrúar 2025
Í Naustaskóla er kennarateymi sem kennir 4. og 5. bekk. Teymið, þær Sunna, Þórey, Hrönn og Kristín hófu í haust að vinna eftir skipulagi um daglega ritun sem unnið er upp úr Ritunarramma Miðstöð menntunar og þjónustu (óbirt drög, 2024). Innra mats teymi Naustaskóla hafði komist að þeirri niðurstöðu að mikilvægt væri að skoða hvernig hægt væri að styðja kennara betur í að fóta sig í þeim kröfum sem birtast í ritunarrammanum og tryggja að nemenedur myndu fást við þær áskoranir sem þar birtast. Kennarateymið í 4. og 5. bekk buðu sig fram við að prófa að vinna með ritunarverkefnin og hafa gert svo frá skólabyrjun í haust. Ritunarverkefnin eru hluti af daglegu starfi, þó að eitthvað hafi þurft að aðlaga þau. Þær hafa þó unnið nánast öll verkefnin samkvæmt áætlun. Í ársskipulagi ritunar, sem fylgir kröfum ritunarrammans, er lögð áhersla á fjölbreytni og unnið með ólíkar tegundir texta, svo sem sögugerð, fræðitexta og rökfærslutexta. Nemendur semja ljóð, taka viðtöl, vinna með yndislestur í gegnum bókaklúbb og margt fleira. „Mánudagsritun“ er fastur liður og hefur leitt til augljósra framfara hjá öllum nemendum, allt frá greinilegum til mikilla framfara. Nemendur eru stoltir af verkefnum sínum, og kennarateymið leitar stöðugt nýrra leiða til að styðja ritun og málfræði í gegnum þessi verkefni. Kennarahópurinn var sammála um að það væri gríðarlega mikill tímasparnaður og öryggi sem fylgdi því að hafa aðgang að svo viðamiklu skipulagi sem þær geti treyst að standist kröfur. Þær tóku fram að þær upplifðu að verkefnin væru krefjandi en þær nýttu sér það til þess að efla hvor aðra sem fagmenn sem skilaði sér í metnaði til þess að setja sig inn í t.d. ljóðagerð og kveðskap! Ein mikilvægustu gæða einkenni teymiskennslu eru að kennarar lyfti hvort öðru upp og efli fagmennskuna - það er greinilega að eiga sér stað í þessu fyrirmyndar kennarateymi. Að sögn kennaranna hafa nemendur algjörlega blómstrað í skapandi vinnu með ritunarverkefni, þær njóta þess að fylgjast með þeim tjá sig á fjölbreyttan hátt og blása út af stolti af eigin verkefnum. Næstu skref hjá hópnum er að efla sig enn frekar í að veita nemendum endurgjöf og endurskipuleggja og samræma útfærslur á stílabókunum sjálfur og velja stærðir og gerðir við hæfi verkefnanna. Við fáum að heyra meira frá Naustaskólateyminu þegar þær koma í heimsókn í hlaðvarpsþáttinn okkar. Í mars kemur út ný sería af þáttum á hlaðvarpi Ásgarðs um menntamál þar sem lögð verður áhersla á gæðamál í menntakerfinu. Ritunarverkefnin - ársskipulag um ritun er aðgengilegur öllum kennurum hér fyrir yngsta, mið- og unglingastig Kristrún