Blog Layout

Kynning á starfsemi Ásgarðsskóla - Samstarf við Fjarska og Menntavísindasvið

Kristrún Birgisdóttir • 14. janúar 2025

Kynning á starfsemi Ásgarðsskóla - skóla í skýjunum 

Starfsemi Ásgarðsskóla hefur vakið athygli víða og hefur vakið athygli bæði innan lands sem utan. Það eru ekki allir sem átta sig á því að Ásgarður skólaráðgjöf er eitt en Ásgarðsskóli er annað - en fyrirtækin eru systurfyrirtæki og eru eðlilega í miklu samstarfi. 
Fyrirtækin eru stofnaðilar að Fjarska (fjarski.is) sem eru samtök um fjarnám og stafræna kennsluhætti. Samtökin voru stofnuð 12. júní 2024 sem vettvangur fyrir innlegt og alþjólegt samstarf um þekkingu, rannsóknir og þróun á sviði fjarnáms og stafrænna kennsluhátta. Allir sem vilja vinna að markmiðum samtakanna geta gerst félagar. Markmið Fjarska eru að efla skilning á fjarnámi, auka gæði þess, framboð og stuðla að þróun stafrænna kennsluhátta með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. 

Fyrsti viðburður ársins hjá Fjarska er kynning á starfsemi Ásgarðsskóla. Tinna Pálsdóttir námskrárstjóri sér um kynninguna sem fram fer á Zoom þann 30. janúar næstkomandi kl. 15.00 til 15.45. Fyrirlesturinn er liður í námi kennaranema við Menntavísindasvið Háskóla Íslands en öll velkomin að fylgjast með í fjar. Hllökkum til að sjá sem flest! 
-------------
Dagsetning og tími: 30. janúar kl. 15.00 til 15.45 
Staður/fjar: Útsending og fyrirlestur hjá Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Streymi í Zoom frá HÍ. 
Bæta í Google dagatal - Smella hér. 
Facebook viðburður - Smella hér.  

Markhópur 
Kennarar, kennaranemar, foreldrar og aðrir áhugasamir um skólaþróun. 

Dagskrá fyrirlestrarins
Kynning – 15.00 til 15.30 
Spurningar – 15.30 til 15.45 

Eftir Kristrún Birgisdóttir 7. mars 2025
Á undanförnum árum höfum við hjá Ásgarð skólaráðgjöf unnið að því að skapa vettvang fyrir faglega umræðu um menntamál með því að gefa út Hlaðvarp Ásgarðs um menntamál. Hingað til höfum við gefið út 19 þætti, þar sem megin þemað hefur verið gæðamál. Þættirnir eru því oft og sérstaklega nýjustu sex þættirnir byggðir á viðmiðum um gæðastarf og eru hannaðir til að styðja kennara, skólastjórnendur og aðra sem starfa í menntakerfinu við að þróa og bæta skólastarf. Í þáttunum ræðum við við gesti og ráðgjafa Ásgarðs, sem veita innsýn í lykilhugtök og aðferðir sem styðja við markvissa og árangursríka skólaþróun. Við höfum lagt ríka áherslu á að tengja umræðuna við praktískar lausnir og reynslu úr vettvangi skólastarfs, þannig að hlustendur geti nýtt sér þekkinguna í eigin starfi. Hlaðvarpsþættirnir fjalla meðal annars um: Viðmið um gæðastarf - hvað einkennir góðan skóla og hvernig getum við unnið markvisst að umbótum? Nemendamiðað nám – aðferðir sem styrkja þátttöku og ábyrgð nemenda á eigin námi. Leiðsagnarmat og námsmat – hvernig við metum nám og framfarir á árangursríkan hátt. Faglegt lærdómssamfélag – hvernig kennarar og starfsfólk geta unnið saman að betri menntun og auknum gæðum í leik- námi og kennslu. Hagnýtar lausnir í skólastarfi – leiðir til að innleiða nýjar aðferðir í skólastarfi með áherslu á að deila reynslu og áætlunum sem nýtast í starfi. Hlaðvarpið hefur verið frábær leið til að miðla þekkingu og viðbrögðin hafa verið góð! Markmið okkar er að halda áfram að efla þessa umræðu og bjóða hlustendum upp á dýrmæt sjónarhorn og hagnýt ráð. 📢 Fylgstu með nýjustu þáttunum hér , allt telur þetta sem endurmenntun í starfi!
Eftir Kristrún Birgisdóttir 7. febrúar 2025
Landshlutaflakkið heldur áfram, en viðfangsefni grunnskólanna eru þau sömu um allt land. Í síðustu viku ræddum við tækifæri í Fjallabyggð til að sameina endurskoðun á viðmiðum aðalnámskrár, og í þessari viku var röðin komin að Bolungarvík. Báðir skólarnir hafa lengi unnið með námsvísa sem leiðarljós í skipulagningu kennslu. Við ræddum ýtarlega möguleikana á að sameina þessa vinnu – að innleiða ný hæfniviðmið og endurskoða skólanámskrárgerðina samhliða, með sérstaka áherslu á gæðanámsmat. Virkilega spennandi! Góð skólanámskrá þarf að vera vel ígrunduð og skiljanleg öllum sem koma að skólastarfinu. Námsumsjónarkerfi þurfa að styðja við ferlið, og hverjum þræði skólanámskrárinnar þarf að fylgja eftir. Það er því upplagt að slá tvær flugur í einu höggi. Þetta er þó alls ekki einfalt – mikilvægt er að taka skynsamlegar ákvarðanir í upphafi og gefa sér nægan tíma til að innleiða breytingarnar vandlega. Það eru margar leiðir til að hefja og vinna innleiðingarferlið. Gæðaráð undir forystu skólastjórnenda ásamt markvissu samráði eru lykillinn að góðum árangri. Hér má sjá mynd sem var teiknuð í Bolungarvík á þriðjudaginn – fyrstu tilraun til að kortleggja þá vinnu sem framundan er við að betrumbæta skólanámskrána og byggja á traustum grunni þeirrar reynslu sem þegar hefur skapast. Öllum er velkomið að nýta sér myndina og lesa úr henni! 😊
Eftir Kristrún Birgisdóttir 7. febrúar 2025
Í Naustaskóla er kennarateymi sem kennir 4. og 5. bekk. Teymið, þær Sunna, Þórey, Hrönn og Kristín hófu í haust að vinna eftir skipulagi um daglega ritun sem unnið er upp úr Ritunarramma Miðstöð menntunar og þjónustu (óbirt drög, 2024). Innra mats teymi Naustaskóla hafði komist að þeirri niðurstöðu að mikilvægt væri að skoða hvernig hægt væri að styðja kennara betur í að fóta sig í þeim kröfum sem birtast í ritunarrammanum og tryggja að nemenedur myndu fást við þær áskoranir sem þar birtast. Kennarateymið í 4. og 5. bekk buðu sig fram við að prófa að vinna með ritunarverkefnin og hafa gert svo frá skólabyrjun í haust. Ritunarverkefnin eru hluti af daglegu starfi, þó að eitthvað hafi þurft að aðlaga þau. Þær hafa þó unnið nánast öll verkefnin samkvæmt áætlun. Í ársskipulagi ritunar, sem fylgir kröfum ritunarrammans, er lögð áhersla á fjölbreytni og unnið með ólíkar tegundir texta, svo sem sögugerð, fræðitexta og rökfærslutexta. Nemendur semja ljóð, taka viðtöl, vinna með yndislestur í gegnum bókaklúbb og margt fleira. „Mánudagsritun“ er fastur liður og hefur leitt til augljósra framfara hjá öllum nemendum, allt frá greinilegum til mikilla framfara. Nemendur eru stoltir af verkefnum sínum, og kennarateymið leitar stöðugt nýrra leiða til að styðja ritun og málfræði í gegnum þessi verkefni. Kennarahópurinn var sammála um að það væri gríðarlega mikill tímasparnaður og öryggi sem fylgdi því að hafa aðgang að svo viðamiklu skipulagi sem þær geti treyst að standist kröfur. Þær tóku fram að þær upplifðu að verkefnin væru krefjandi en þær nýttu sér það til þess að efla hvor aðra sem fagmenn sem skilaði sér í metnaði til þess að setja sig inn í t.d. ljóðagerð og kveðskap! Ein mikilvægustu gæða einkenni teymiskennslu eru að kennarar lyfti hvort öðru upp og efli fagmennskuna - það er greinilega að eiga sér stað í þessu fyrirmyndar kennarateymi. Að sögn kennaranna hafa nemendur algjörlega blómstrað í skapandi vinnu með ritunarverkefni, þær njóta þess að fylgjast með þeim tjá sig á fjölbreyttan hátt og blása út af stolti af eigin verkefnum. Næstu skref hjá hópnum er að efla sig enn frekar í að veita nemendum endurgjöf og endurskipuleggja og samræma útfærslur á stílabókunum sjálfur og velja stærðir og gerðir við hæfi verkefnanna. Við fáum að heyra meira frá Naustaskólateyminu þegar þær koma í heimsókn í hlaðvarpsþáttinn okkar. Í mars kemur út ný sería af þáttum á hlaðvarpi Ásgarðs um menntamál þar sem lögð verður áhersla á gæðamál í menntakerfinu. Ritunarverkefnin - ársskipulag um ritun er aðgengilegur öllum kennurum hér fyrir yngsta, mið- og unglingastig Kristrún
Fleiri færslur
Share by: