Ársfundur Samtaka íslenskra menntatæknifyrirtækja fór fram í gær við hátíðlega athöfn í húsnæði Samtaka atvinnulífsins í Borgartúni. Í tilefni fundarins bauð stjórn samtakanna helstu leiðtogum menntasamfélagsins og öllum almenningi á Íslandi að sitja kynningu á aðildarfélögum samtakanna. Þátttakan fór langt fram úr væntingum og var viðburðurinn mikil lyftistöng fyrir íslenska menntatækni og framtíðarsýn hennar og var salurinn fullsetinn.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, nýkjörinn mennta- og barnamálaráðherra, flutti ávarp þar sem hún lagði áherslu á grunnþætti menntunar, lykilhæfni og grunnfærni í námi barna. Hún undirstrikaði mikilvægi á þátttöku barna og raddir þeirra í öllu skólastarfi og lagði ríka áherslu á mikilvægi íslenskra menntatæknifyrirtækja. Það var ljóst af orðum hennar að hún skilur gildi slíks samstarfs, og vonast er til að samtalið sem hófst á fundinum verði bæði kerfisbundið og reglulegt.
Meðal gesta á fundinum voru lykilaðilar í íslensku skólastarfi, frá MMS, Háskóla Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Samtökum sjálfstæðra skóla, kennarasambandsins og svo má lengi telja!
Öflug nýsköpun og íslensk menntatækni í sókn
Öll íslensku menntatæknifyrirtækin sem eru aðilar að samtökunum kynntu starfsemi sína. Íslensk menntatækni stendur frammi fyrir mikilli grósku og nýsköpun þar sem fjölmörg fyrirtæki eru að ryðja brautina. Meðal þeirra sem kynntu starfsemi sína voru Avia (frá Akademia), Atlas Primer, Beedle, Iðnú, Evolytes, Bara Tala, Beanfee, Mentor/Inna, Skólalausnir og
Tiro
– öll öflug fyrirtæki sem vert er að fylgjast með og vinna frekar með í framtíðinni. Það er augljóst að öflug íslensk menntatækni er komin til að vera.
Kristrún Lind kynnti starfsemi Ásgarðs og Ásgarðsskóla ásamt þróun Vegvísis, nýstárlegs greiningartækis sem metur gæði náms- og kennsluáætlana menntastofnana.
Öflugar pallborðsumræður um framtíð menntatækni
Að kynningunum loknum fóru fram líflegar pallborðsumræður undir stjórn Magnúsar Þórs Jónssonar, formanns Kennarasambands Íslands, og Írisar E. Gísladóttur, framkvæmdastjóra IEI. Umræðurnar snerust um samspil menntatækni og skólakerfisins, mikilvægi stafrænnar umbreytingar í menntun og hvernig menntatæknifyrirtæki geta unnið þétt saman með skólum og stjórnvöldum til að bæta námsupplifun barna og ungmenna á Íslandi.
Ársfundurinn sýndi skýrt að íslensk menntatækni er í mikilli sókn og að samtalið milli menntatæknifyrirtækja, skólasamfélagsins og stjórnvalda er á réttri leið. Það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi þróun og samstarfi á þessu sviði.
Tinna Björk Pálsdóttir