Við í Ásgarði erum stolt af samstarfi okkar við skóla víða um land. Síðan í haust hefur margt breyst hjá okkar samstarfsskólum og er það ekki síst skapandi og skemmtileg verkefni í bland við skýr tengsl við markmið aðalnámskrá og leiðsagnarnám sem hafa haft þau áhrif. Verkefnin okkar byggja öll á samþættingu faggreina, sköpun og mörg þeirra á samvinnu nemenda og áherslum á að nemendur læri að rödd þeirra skipti máli. Nemendur eiga að læra að þeir geta haft áhrif til góðs og að skoðanir þeirra þurfi að heyrast.
Við tókum viðtal við kennara á miðstigi í grunnskóla Bolungarvíkur. Þar hefur lengi verið mikið gróska og samstarf við okkur m.a. hjálpað þeim að fóta sig á auðveldan hátt varðandi námsmat byggt á leiðsagnarnámi. Kennararnir voru að vinna með verkefnið okkar Betri heimabyggð, sem byggir á hugmyndafræði um að nemendur sjái möguleika í eigin umhverfi. Svona verkefni henta vel í dreifbýli eða minni þéttbýli þar sem hagur samfélagsins liggur í mannauðnum sem þar ákveður að setjast að. Nemendur horfa í kringum sig á svæði sem hægt væri að bæta, velta fyrir sér umhverfimálum og umhverfisvernd svæðisins, velta fyrir sér atvinnuháttum og koma með tillögur að einhverju sem gæti eflt samfélagið. Lokahnykkur þessa verkefnis er íbúaþing sem nemendur grunnskóla undirbúa, halda og bjóða m.a.bæjarstjórnum að sitja. Verkefnið hefur verið í notkun víða um land með mismunandi áherslum en í öllum tilfellum hefur Kóvid sett strik í reikninginn hvað varðar íbúaþingin. Það er þó víða búið að fresta þeim aðeins fram á vor þannig það verður spennandi að fá að fylgjast með hvernig nemendum tekst að koma sínum málefnum á framfæri.
Viðtalið við kennarana í grunnskóla Bolungarvíkur er þess virði að hlusta á, því að þær eru með margar góðar lausnir sem gagnast öllum kennurum sem eru með sköpun í sinni kennslu sem byggir á leiðsagnarnámi eða vilja setja fram þannig verkefni. Þess má geta að hægt er að nálgast kennsluáætlanir fyrir Betri heimabyggð fyrir öll stig grunnskóla á vefsíðu okkar ais.is undir námsgögn.