Eftir Kristrún Birgisdóttir
•
7. ágúst 2025
Undanfarin ár höfum við hjá Ásgarði - skólaráðgjöf boðið skólum, sveitarfélögum og foreldrum upp á lausn sem við köllum Nám alls staðar. Í þessu úrræði vinnum við oftast með skólum nemenda sem geta ekki mætt í skóla vegna ýmissa ástæðna. Oftast er það vegna ferðalaga fjölskyldunnar yfir lengri tíma en það hefur líka verið notað vegna langtímaveikinda. Í þannig tilfellum er úrræðið eingöngu í boði óski sveitarfélag eða skóli eftir aðstoðinni. Það er komin góð reynsla á námið, sem er alls ekki fyrir alla en skilar góðum árangri fyrir þá sem það hentar. Fjölskyldurnar fá leiðsögn og er námið hannað í kringum áhugasvið og styrkleika barnsins og alltaf út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár. Börn sem hafa farið í gegnum þetta úrræði hafa flest verið á mið- og unglingastigi. Hugmyndafræðin á bak við þetta er að nám geti átt sér stað alls staðar. Göngutúr fyrir barn sem þarf hreyfingu getur orðið uppspretta stærðfræðináms. Að telja glugga í háhýsi, leggja saman, margfalda og deila, er nám. Að skoða fuglana og gróðurinn í umhverfinu, segja frá því sem fyrir augum ber og jafnvel rannsaka eftir að heim er komið, er nám. Ferð á El Prado safnið í Madrid getur verið nám. Það er hægt að segja frá því sem maður sér, teikna, skrifa um það, læra um listamenn og listastefnur. Ein svona ferð getur verið mikið nám ef farið er af stað með ákveðin markmið í huga. Fyrir suma er lítið spennandi að fara erlendis með fullt af eyðufyllingar- bókum til að skrifa inn og það er líka spurning um gagnsemi. Er markmiðið að læra eitthvað af efninu eða fylla bara út í bókina til að hægt sé að segja að hafi nám átt sér stað? Hvernig er árangurinn mældur? Einn af okkar fyrrum flottu nemendum finnst yfirleitt leiðinlegt að skrifa, en þegar hann sér þörfina fyrir það, þá gerir hann. Hann var ekki spenntur fyrir námsbókunum sem hann fékk í skólanum hérna heima og sem hann fór með erlendis. Aftur á móti þá fann hann þörf á að gera glærur og halda kynningu um fótbolta í verkefni sem hann hafði aðgang að í námsumsjónarkerfinu okkar, enda mikill áhugamaður um þá íþrótt og hefur meira að segja hitt Messi - hans helst átrúnaðargoð. Hann ákvað svo þegar hann var 12 ára að hann vildi verða kokkur (hann er reyndar búinn að skipta um skoðun núna) og hann skrifaði kokkabók upp á 42 bls. Bókin er skrifuð til að vekja athygli á Duchenne sjúkdóminum, sem höfundurinn lifir með. Bókin verður gefin út, en hægt er að kaupa hana, styðja málefnið eða bara fá upplýsingar um hana með því að senda póst á lukkasvans@gmail.com. Eftir að hafa skrifað bókin, fór höfundurinn í skóla í landinu sem hann dvelur í. Þar var hann að læra að setja á stofn fyrirtæki og að gera viðskiptamódel. Bókin hans varð grunnurinn af fyrirtækinu en þurfti að vera á ensku. Hann vippaði henni því yfir á það tungumál. Þetta litla ritunarverkefni er því orðið að haug af allskonar þekkingu og leikni um leið og tengingar við hæfniviðmið og önnur markmið menntayfirvalda eru orðnar margar. Það sem meira er, ritunarverkefnið er orðið að einhverju áþreifanlegu og raunverulegu sem var ekki bara skrifað til að skila skólaverkefni, heldur til að setja mark sitt á umhverfið. Inni á Askinum - námsumsjónarkerfi Ásgarðs fá fjölskyldurnar aðgang að verkefnum sem hjálpa þeim að efla hæfni í því sem þau vilja ná að efla. Nemandi sem gerði fuglaþemað þar, fékk gríðarlegan áhuga á fuglum í framhaldinu en þemað snýst um margt annað eins og ritun, og hugtakaskilning. Verkefnið snertir á hæfniviðmiðum fyrir náttúrugreinar, íslensku, stærðfræði, list- og verkgreinar, lykilhæfni, ensku og upplýsinga- og tæknimennt. Flest þemun í Askinum eru samþætt við margar faggreinar því að nám á sér sjaldnast stað í sílói einnar faggreinar. Þegar við náum að kveikja innri áhugahvöt nemenda eins og oft hefur gerst í Námi alls staðar, þá gerast stórkostlegir hlutir. Nemendur sýna metnað til að gera verkefnin vel, því að þau læra að nýta styrkleika sína og áhugasvið til að uppfylla markmið aðalnámskrár. Þau halda utan um stjórnina á eigin námi með forráðamönnum en námið er hannað út frá því sem þau vilja læra og því sem þau þurfa að efla. Eldri nemendur skipuleggja námið sitt sjálfir og halda utan um það í verk- og tímaáætlunum sem ráðgjafi Ásgarðs hefur aðgang að. Ráðgjafinn sem sér um þetta úrræði, hefur alltaf yfirsýn yfir hvað er gert og hvað er metið. Að minnsta kosti tvisvar á önn eru fundir þar sem farið er yfir stöðuna, endurmetið það sem þarf að gera og kennslufræðileg aðstoð veitt. Við lok tímans í Námi alls staðar er námsárangur prentaður út úr kerfinu og skýrsla send á heimaskóla barnanna og/eða sveitarfélag sem skráir nemendur í úrræðið. Nám alls staðar er ekki skóli og aðeins tímabundin lausn. Þetta er úrræði sem hefur sýnt að nám er ekki bundið við byggingar, bækur eða tölvur. Nám gerist þegar áhugi og markmið mætast og þegar fjölskylda og kennari vinna saman að því að styðja við nemandann. Í Askinum er fjöldi verkefna sem hægt er að velja úr og það er alltaf hægt að bæta við öðrum verkefnum sem vekja áhuga nemandanna. Þannig verður námið klæðskerasniðið að hverjum og einum. Þegar það er gert verður námið ævintýri líkast.