Eftir Kristrún Birgisdóttir
•
25 Oct, 2024
Markmið menntastefnu Akureyrarbæjar er að skapa framúrskarandi skólastarf sem mætir þörfum allra barna, þar sem fjölbreytni og jöfnuður eru í fyrirrúmi. Öllum þeim sem koma að menntun barna er innprentað traust á getu þeirra til að læra og dafna. Samstaða fjölskyldna og skólasamfélagsins er lykillinn að því að tryggja gæði menntunar, sem er undirstaða góðs samfélags. Fræðslusvið Akureyrarbæjar hefur beitt sér fyrir því að koma á virkum gæðaráðum í öllum leik- og grunnskólum bæjarins. Þessi gæðaráð starfa samkvæmt mælikvörðum menntastefnunnar og sinna innra mati með reglubundnum hætti til að tryggja stöðuga umbótavinnu. Í gær, fimmtudaginn 24. október, komu saman skólastjórar, deildarstjórar og fulltrúar úr gæðaráðum skólanna til að deila reynslu sinni af innra mati liðins skólaárs, ræða um þá umbótavinnu sem hefur átt sér stað og kynna fyrirhuguð umbótaverkefni komandi skólaárs. Þessi samvera veitir tækifæri til að fá dýpri innsýn í skólastarfið og matið, ásamt því að læra af reynslu hvers annars. Við erum afar stolt af því að fá að vera hluti af þessari þróunarvinnu með Akureyrarbæ og teljum okkur lánsöm að fá nú að leggja verkefnin í hendur gæðastjóra leik- og grunnskóla á fræðslusviði bæjarins. Menntastefna Akureyrarbæjar var birt 2020 og gildir til ársins 2025 en þessi dagur stafestir greinilega að hér eru gæðastarfshættir að festast í sessi! Til hamingju Akureyri með framúrskarandi gæðastarf sem heldur áfram að vaxa og dafna ár frá ári!