Skólanámskrá

komdu með okkur í skýjin

Skólanámskrá

Skólanámskrá Ásgarðs byggir á aðalnámskrá grunnskóla með aðferðum International Middle Years Program. Nemendamarkmið skiptast í þrjú megin svið, almenn námsmarkmið, persónuleg markmið og alþjóðleg markmið. Grunnþættir aðalnámskrá draga vagninn en sex heildstæð þemaverkefni, þar sem sérstök áhersla er lögð á hvern grunnþátt, fylgja í kjölfarið.

Kennsluaðferðir

Hvert þemaverkefni byggir á ákveðnu ferli. Öll verkefni hefst á inngangi (kveikju), síðan kortlagningu á fyrri þekkingu nemenda (KVL) þá tekur við rannsóknartímabil þar sem nemendur kafa saman eða sitt í hvoru lagi ofaní viðfangsefnið. Á meðan á vinnuferlinu stendur halda nemendur leiðardagbók (reflective journaling) og leggja mat á það hvað þeir hafa lært, einir sér, saman og með stuðningi kennara. Að lokum halda nemendur kynningu á því sem þeir hafa lært og það birt á fréttastofu nemenda. Yfirlit yfir þemaverkefnin og helstu viðfangsefni skólaársins má sjá í námsvísi Ásgarðs.

Skólabragur

Það er skýr stefna skólans að komið sé fram við alla af virðingu og að allir hafi jafnan rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Lögð er megináhersla á að gera sitt besta og leggja sig fram um að bæta umhverfi og líf annarra. Gengið er útfrá því að allir geti fylgt eftir stefnu skólans en stutt við þá sem þurfa frekari stuðning til að tileinka sér þann skólabrag sem myndast þegar virðing er höfð að leiðarljósi. Skólareglur eru samdar af nemendum en bornar undir foreldra og stjórn skólans til samþykktar.

Bókasafn og bjargir

Bókasafn Ásgarðs er ríkulegt safn af efni sem starfsfólk skólans og nemendur byggja upp með tímanum. Í bókasafninu er að finna ríkulegar bjargir sem auðvelda nemendum námið. Nemendur í Ásgarði eiga rétt á námsbókum frá Menntamálastofnun og sjá kennarar um að panta þær bækur sem eiga við hverju sinni. Námsbækur stýra ekki náminu í Ásgarði en bækur eru notaðar af öllum í Ásgarði til að dýpka þekkingu sína á viðfangsefnum sem verið er að fást við hverju sinni.

Tækni og nám

Allir nemendur sem stunda nám í Ásgarði fá tölvu og heyrnatól að láni frá Ásgarði án endurgjalds nema að góður aðbúnaður sé til staðar. Gott er ef nemendur eiga síma sem hægt er að taka myndir á og hringja í og úr. Allir nemendur þurfa að geta stundað námið sitt í umhverfi þar sem hljóð berst vel góða vinnuaðstöðu. Önnur tæki og tól eru ekki nauðsynleg til að stunda nám í Ásgarði. Góð nettenging er skilyrði.

Heimanám

Ekkert skilgreint heimanám er í Ásgarði. En hver nemandi og nemendahópar þurfa að ljúka verkefnum sínum við lok hverrar lotu eða þemaverkefnisins. Það er engin undantekning frá verkefnaskilum og ef nemendur hafa ekki nýtt tíma sinn vel til að vinna á skólatíma þá þurfa þeir að taka til hendinni til að ljúka verkefnum sínum. Umfang verkefnanna er ákveðið af nemendum í samráði við kennara – allir nemendur ættu að geta sniðið verkefni sín að sínum þörfum enda er áætlanagerð lykilþáttur í námi nemendanna.

Skipulag

Stundaskrá Ásgarðs er alltaf eins og samanstendur af morgunstund þar sem allir koma saman og farið yfir verkefni dagsins. Í kjölfarið taka við vinnustundir og teymisfundir með kennurum. Í lok hverrar viku halda nemendur kynningarfund á verkefnum vikunnar og foreldrum er boðið að hlusta á. Í hverri viku tekur umsjónarkennari viðtal við hvern einasta nemenda og aðra hvora viku eru nemendastýrð foreldraviðtöl. Nemendur vinna í teymum sem taka breytingum yfir skólaárið. Nemendum er ekki raðað í bekki.