Skólahjúkrun

komdu með okkur í skýjin

Í Ásgarði er starfandi skólahjúkrunarfræðingur sem heldur utan um alla þá þætti er snúa að heilsuvernd grunnskólabarna í skólanum. Eins og gefur að skilja þá verður þjónustan með aðeins öðru sniði en þegar um staðarnám er að ræða. Samvinna verður höfð við þá heilbrigðisstofnun sem nemandi er skráður hjá til að sækja reglubundnar heilsufarsskoðnir og þær bólusetningar sem landlæknisembættið kveður á um. 

Öll fræðsla, viðtöl, upplýsingar um heilsufar nemenda og stuðningur mun skólahjúkrunarfæðingur sjá um og eins vera í góðum tengslum við þá heilsugæslu þar sem nemandi sækir sínar bólusetningar og almennar skoðanir. 

Nemendur geta hvenær sem er leitað til skólahjúkrunarfræðings með sína líðan líkamlega sem og andlega og verður unnið að lausnum. Það mun vera metið hverju sinni hvort hægt sé að styðja við nemandann og aðstoða innan skólans eða hvort leita þurfi eftir sérhæfðari aðstoð eins og sálfræðimeðferð eða einhverju slíku eftir því sem við á. Allt mun þetta vera unnið í góðu samstarfi við foreldra.

Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru:
  • Fræðsla og heilsuefling
  • Bólusetningar
  • Skimanir 
  • Viðtöl um heilsu og líðan
  • Umsjón og eftirlit með umönnun langveikra barna innan skólans
  • Ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans

Heilsuvernd skólabarna sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu í öllum árgöngum og hvetur til heilbrigðra lífshátta. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6-H heilsunnar.

Áherslur fræðslunnar eru:

  • Hamingja
  • Hollusta
  • Hreinlæti
  • Hreyfing
  • Hugrekki
  • Hvíld
  • Kynheilbrigði.

Eftir fræðslu fá foreldrar upplýsingar í tölvupósti um innihald fræðslunnar. Þá gefst foreldrum kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig þau geti nýtt sér það í daglegu lífi.

Bólusetningar

Bólusetningum er ætlað að verja einstaklinginn gegn alvarlegum smitsjúkdómum og draga úr hættu á smiti í samfélaginu.

Sjúkdómar, sem Embætti landlæknis mælir með að öll börn á Íslandi séu bólusett gegn, geta valdið alvarlegum veikindum og jafnvel dauða.

Eftirfarandi bólusetningar fara fram í heilsuvernd skólabarna og eru samkvæmt tilmælum Embættis landlæknis:

7. bekkur:
  • Mislingar, rauðir hundar og hettusótt (ein sprauta).
    Aukaverkanir geta verið roði, eymsli og bólga á stungustað og getur þá verið gott að nota kælingu á stungustað og/eða gefa væg verkjalyf (paracetamol). Einnig getur hiti og útbrot komið fram 5-12 dögum eftir bólusetninguna.
  • HPV (Human Papilloma veirur) sem geta valdið leghálskrabbameini. Einungis stúlkur fá þessa bólusetningu. Þetta er 2 sprautur gefnar með 6 mánaða millibili.
9. bekkur:
  • Mænusótt, barnaveiki, stífkrampi og kíghósti (ein sprauta).
    Aukaverkanir geta verið roði, eymsli og bólga á stungustað eða hitavella. Gott getur verið að nota kælingu á stungustað og/eða gefa væg verkjalyf (paracetamol).

Áður en kemur að bólusetningu er sendur tölvupóstur til foreldra um tímasetningu. Mikilvægt er að börn mæti með bólusetningarskírteini sín  á viðkomandi heilbrigðisstofnun þegar bólusetning á að fara fram.

Ef líkur eru á að barnið sé ekki að fullu bólusett þá eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólahjúkrunarfræðinginn. Bólusetningar barna eru alltaf á ábyrgð foreldra.

Afþakki foreldrar bólusetningar fyrir börn sín þurfa þeir að tilkynna það skriflega til heilsuverndar skólabarna og slíkt ber að skrá í heilsufarsskrá barns. 

Skimanir og viðtöl
Vöxtur barna

Að fylgjast með vexti barna gefur mikilvægar upplýsingar um heilsufar og næringarástand. Vaxtalínurit er einn besti mælikvarði sem völ er á til að fylgjast með almennu heilsufari og heilbrigði barna. Mikilvægt er að hæðar- og þyngdarmæla með reglulegu millibili til að geta metið frávik á vaxtarlínuriti.

Þar sem vöxtur og holdafar er oft viðkvæmt efni fyrir börn og unglinga er mikilvægt að eftirfylgd sé í samráði við foreldra og framkvæmd á nærgætin hátt.

Vöxtur barna er mældur í 1., 4., 7. og 9. bekk.

Sjón

Sjóngæsla barna er mikilvægur þáttur í heilsuvernd. Sjóngallar eru nokkuð algengir meðal barna og unglinga og aukast með aldrinum. Ef ekki er gripið til viðeigandi úrræða hefur það áhrif á líðan og námshæfni nemandans.

Með sjónprófi  er sjónskerpa (nærsýni) mæld á hvoru auga fyrir sig með því að ákvarða hversu smáa stafi barnið getur lesið úr ákveðinni fjarlægð. Sjónprófað er með HVOT töflu sem samsett er úr 4 bókstöfum, H-V-O-T.  Þekki börn ekki stafina er til spjald með sömu bókstöfum sem barnið bendir á.

Sjónpróf fara fram í 1., 4., 7. og 9. bekk.

Viðtöl um heilsu og líðan

Þegar skimanir fara fram í 1., 4., 7. og 9. bekk ræðir hjúkrunarfræðingurinn við nemendur um heilsu og líðan. Markmið þessara viðtala er að styrkja vitund nemenda um eigin lífsstíl og líðan. Eins að geta gripið til úrræða ef vart verður við vanlíðan eða áhyggjur. Grunnupplýsingar úr viðtali um heilsu og líðan eru skráðar í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar

Á heilsuvefnum Heilsuvera.is er yfirlit yfir áherslur í starfseminni ásamt vísun í leiðbeiningar Embætti Landlæknis. Einnig eru góðar upplýsingar á vef heilsugæslu höfuborgarsvæðisins vilji foreldrar kynna sér málin betur, heilsugaeslan.is

 Skólahjúkrunarfræðingur: Ellen Óskarsdóttir ellen@asgardsskoli.is