Lykill að fjarkennslu og fjarnámi á grunnskólastigi #COVID-19

Síðustu þrjú skólaár höfum við hjá Tröppu ráðgjöf kennt nemendum á mið- og unglingastigi “í fjar” eins og við köllum það. Nemendur hafa ýmist stundað nám alfarið heiman frá sér eða mætt að einhverju leyti í skólann sinn og stundað nám í fjar að hluta til. Þessi þrjú ár hafa verið okkur dýrmæt og afar mikilvæg reynsla safnast í sarpinn.

 Í haust ætlum við að stíga skrefið til fulls og opna grunnskóla fyrir nemendur á unglingastigi sem geta þá alfarið stundað nám óháð staðsetningu. Skólinn heitir Ásgarður og nú þegar er tekið við umsóknum – eina inntökuskilyrðið er að viðkomandi nemandi hafi aldur til að vera á unglingastigi, eða hafi náð 7. bekkjar hæfniviðmiðum – hafi trú á sjálfum sér og hafi vilja til þess að vinna sjálfstætt og með öðrum. Nemendur geta lokið unglingastiginu á tveimur til þremur árum í Ásgarði. 

Í ljósi þess að nú hafi verið lýst yfir neyðarástandi vegna heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar og líklegt er að innan skamms falli skólahald niður. Komi til þessa og að  börn á grunnskólaaldri þurfi að fá skólaþjónustu heimafyrir er okkur það ljúft og skilt að deila helstu ráðleggingum okkar um skipulag fjarnáms og kennslu á grunnskólastigi. 

Reynum að sjá fyrir okkur hvernig við gætum leyst málin í sameiningu – komi til þess að grunnskólum verði lokað í einhverjar vikur. 

Aðgengi að tölvum 

Skólar eru misvel búnir af tækjum og tólum og heimilin eru það líka. En gefum okkur að hægt verði að finna leiðir til þess að öll börn á unglinga- og miðstigi hafi aðgang að tölvum, símum eða spjaldtölvum heimafyrir. Grunnskólar eiga flestir í það minnsta einhver bekkjasett af fartölvum og spjaldtölvum. Gefum okkur að hægt verði að tryggja nemendum jafnt aðgengi að skjánum með því að lána tæki heim til þeirra heimila sem ekki búa svo vel að eiga þau til. 

Náms- og kennslusvæði – að koma verkefnum til nemenda

Það fyrsta sem þarf að huga að eru leiðir til þess að koma verkefnum til nemenda og hvernig kennarinn getur verið í beinu sambandi við nemendur. Fjarnám og kennsla þarf að byggja á virkum samskiptum nemenda og kennara – bókmiðað sjálfsnám þar sem nemendum eru settar fyrir blaðsíður og kaflar eftir greinum til að klára telst í besta falli vera bréfaskóli. 

Margir skólar eru nú þegar með Microsoft Teams (MT) eða Google Classroom (GC) aðgengilegt fyrir nemendur og kennara. Þar sem þeir starfshættir hafa fest í sessi er auðvelt að halda áfram að vinna með stafrænu náms- og kennslusvæðin til að koma upplýsingum, verkefnum og vera í samskiptum við nemendur. Þessar veitur leysa þó ekki allt enda fyrst og fremst staður til að geyma gögn fyrir nemendur og koma verkefnum og upplýsingum á milli kennara og nemenda. 

Sumir kennarar og skólar hafa nýtt lausnir frá Microsoft og Google án þess að nýta GC eða MT, þá hafa nemendur yfirleitt aðgang að tölvupósti og drifum með skjalavörslu í skýjunum. Með drifum í skýjunum og þar sem kennarinn getur fylgst með nemendum vinna í skjölunum sínum verður leiðsagnarmat leikur einn. Inni í skjölunum getur kennarinn skilið eftir athugasemdir, bent á hvað betur má fara og sett inn hlekki til að benda á frekari heimildir og leiðir til að ná betri árangri. Lykilatriði er að setja nemendunum fyrir verkefni sem fara á dýptina, taka tíma og eru lengi í vinnslu. Samþætting námsgreina og heildstæð verkefni eru skemmtilegri og líklegri til að tryggja virkni nemendanna. 

Þar sem kennarar hafa ekki fengið þjálfun í að nota ME eða GC er auðveldara að nota tölvupóstinn og/eða Mentor til að senda og taka við verkefnum heldur en að þjálfa kennara í að nota stafræn náms- og kennslusvæði. Það tekur tíma að komast upp á lagið með það. Lykilatriði hér er að nota það sem virkar nú þegar.

Fjarfundatæki 

Það skiptir ekki öllu máli hvaða tæki eru notuð til þess að eiga almenn samskipti við nemendur. Zoom.us er það forrit sem við höfum notað hvað mest í almennu kennslunni, Zoom er fjarfundaþjónusta sem greitt er fyrir en ekki samfélagsmiðill – það er hægt að nýta hluta þjónustunnar án þess að greiða fyrir hana en þá er notandinn bundinn við 20 mínútna fundi eingöngu. Zoom er auðvelt í notkun og auðvelt að læra að nota það. Kennarinn getur verið með marga nemendur á skjánum og getur líka fært nemendur í minni hópa og látið þá vinna sjálfstætt. Kúnstin er að námið sé nemendamiðað og krefjist þess að nemendur séu að glíma við verkefnin saman og komast að niðurstöðu. Hægt er að skrifast á við nemendur í einum hóp eða í minni hópum.. 

Zoom er gríðarlega stórt tæki sem býður upp á að kennarar geti tekið upp fyrirlestra og verið í margvíslegri virkni með nemendum – og það geta þeir gert sem eru snöggir upp á lagið með að tileinka sér tæknina. Einfaldasti hluti Zoom eru fundirnir – það er einfalt að læra að deila hlekk til dæmis með tölvupósti. Lykilatriði hér er að nota það sem kennarar treysta sér til að nota. Margar aðrar leiðir eru færar, Skype, Facebook og aðrir samfélagsmiðlar bjóða auðvitað upp á fjarfundi. Hér þarf að gæta að upplýstu samþykki þeirra sem taka þátt, persónuvernd og stefnu skólans. 

Uppáhalds fjarfundaformið okkar er sýndarveruleiki en í Oculus Quest er fjarfundabúnaður þar sem hægt er að funda með nemendum í kennslustofum og fyrirlestrarsölum. Þetta er fyrir lengra komna en er mun leiða til byltingar í fjarnámi og kennslu á öllum skólastigum. Búnaðurinn er eilítið þungur og hentar ekki börnum að vera með á höfðinu mjög lengi í einu en OC með Google Classroom eða Microsoft Teams og Zoom eru auðvitað mögnuð tæki. Lykilatriðið er að átta sig á aðsýndarveruleiki mun vega þungt í fjarkennslu í náinni framtíð. Þetta verður að koma fram þó að ólíklegt sé að sýndarveruleiki verði nýttur af nema framsýnustu skólum á þessum tímapunkti. 

Þegar verið er að vinna með einn nemanda í einu og ítrasta öryggis er krafist og verið er að fjalla um viðkvæm persónugreinanleg gögn og jafnvel færa þau á milli – er KaraConnect (www.karaconnect.is) frábær lausn og í raun eina leiðin sem uppfyllir íslenskar kröfur. Skólar geta að leigtsér svæði til þess að nýta sér Köru og svæði nemandans nýtist áfram í samskiptum við framtíðar námsráðgjafa ef dæmi er tekið. Landlæknir hefur staðfest KaraConnect  sem örugga leið frá persónuverndarsjónarmiðum

Kennslufræði 

Í fjarkennslu og námi er nauðsynlegt að hafa heildstætt nemendamiðað nám í fyrirrúmi og efla kerfisbundið nemendasjálfstæði. Eyðufyllingar og vinna með einhæft bóknám rúmast illa í alvöru fjarnámi þó að það sé auðvitað hægt að senda nemendur heim með bækur og halda svo fundi með þeim til að fá að heyra og sjá hvernig gengur að ljúka verkefnum þar. En það er ekki fjarnám! 

Ef vel á að vera er lykilatriði  að nýta tækifærið og slá tvær til þrjár flugur í einu höggi með því að samþætta stöðugt t.d. tungumál og náttúru og samfélagsfræðigreinar. Listin er “Teach less – learn more”,sem gæti útlagst sem “Kenna minna – læra meira”, þarf að vera leiðarljós í fjarnámi. Nemendur verða að fá tækifæri til að vinna saman, tala saman og ígrunda saman og í sitthvoru lagi. Fjarkennarinn heldur ekki börnum á skjánum í stöðugum fyrirlestrii – þá missa þau athyglina um leið. Það lærst fljótt að þekkja blikið í augunum á þeim þegar athyglin hverfur og færist yfir á youtube eða annað afþreyingarefni á skjánum. 

Það fer eftir aldri hversu lengi nemendum er haldið við skjáinn og hversu mörgum í einu. Galdratalan sem við höfum miðað við í fjar er um fimm nemendur í hópi. Það er vitanlega hægt að vera með stærri hóp í einu og Zoom býður upp á það að hafa hundruði saman að horfa. Sama með Google Hangout – þar eru engin takmörk. Þegar verið er að taka fyrstu skrefin mælum við með því að hafa fimm nemendur á skjánum í einu og svo má bæta smán saman við. “Breakout classrooms” í Zoom er leið til þess að taka hóp af nemendum og flokka saman í minni aðskilda skjáheimi sem kennarinn getur flakkað á milli eftir að hafa gefið fyrirmæli í stærri hóp nemenda. Lykilatriði er að kennarinn fikri sig áfram og hafi skýr markmið með kennslustundinni. 

Námsefni og kennsluáætlanir 

Heildstæð, samþætt verkefni eru lang besta leiðin til þess að vinna í fjar. Hér koma nokkrar hugmyndir að verkefnum eftir stigum og fyrirkomulagi fjarfunda/kennslu. Allar hugmyndirnar hér fyrir neðan gera ráð fyrir samþættingu námsgreina og úrvinnsla nemenda er persónumiðuð. Ein hugmynd eða eitt verkefni er teiknað upp og nemandinn vinnur út frá sinni getu og áhuga. Eitt verkefni og 25 ólíkar útkomur. Þessi listi er ekki tæmandi en gerður til þess að gefa hugmynd um hvað virkar best í vinnu með nemendum í fjar. 

Unglingastig 

 • Nemendur á unglingastigi ættu að geta komið daglega að skjánum með kennaranum sínum. Kennarar á unglingastigum stærri skólanna þurfa að koma sér saman um hvaða heildstæðu og samþættu verkefni á að leggja fyrir nemendur. Þegar verkefni eru samþætt og heildstæð  er hægt að leggja sama verkefnið fyrir allt unglingastigið og þau leysa þau á hvert á sinn hátt. Kennarar þurfa að ákveða saman í teymi hvað á að gera og skipta á milli sín skjáfundum með nemendum. Við mælum því ekki með því að kennarar setji fyrir eftir greinum þannig að einn kennari setji fyrir á mánudegi, annar á þriðjudegi og svo framvegis. 
 • Dæmi um heildstæð verkefni á unglingastigi
  • Hver er ég? er heildstætt verkefni sem nemendur geta unnið hver fyrir sig. Þetta verkefni getur verið góð æfing fyrir nemandann í að koma sér af stað sem fjarnemi. Þetta verkefni er upphaflega skrifað fyrir 7. bekk en verkefnið er 100% einstaklingsmiðað og á við nemendur upp grunnskólann og framhaldsskólann líka. 
  • Kistan og Kistillinn eru stór áhugasviðsverkefni sem upplagt er að vinna með í fjar. Þetta eru einstaklingsverkefni og henta unglingum í 8.-10. bekk alveg sama hvert getustigið er. Þetta eru skjöl sem kennarar geta tekið og gert að sínu, breytt og einfaldað. 
  • School in the cloud – stórar spurningar sem nemenendur geta valið sér að svara. Kennarar geta ákveðið að nemendur skili kynningum, ritgerðum, myndböndum til að gera grein fyrir svörum sínum. Lykilatriði hér er að spurningin sé sjálfsprottin – hægt að vinna á ensku, dönsku eða íslensku. 
  • Stærðfræðiþemaverkefni – hugmyndir frá Hörðuvallarskóla byggt á verkefni eftir Ágúst Benediktsson. 
  • 10 hugmyndir að heildstæðum verkefnum frá 1.-10. bekk með grunnþáttinn Lýðræði og Mannréttindi að leiðarljósi. Unnið af Tröppu ráðgjöf í samvinnu við MMS.
 • Auðvitað fjölmargar aðrar veitur og leiðir til sjálfsnáms bæði fyrir nemendur og kennara. 
  • Kahn Academy 
  • Ted-ed – þar sem hægt er að vinna út frá ákveðnu efni eða setja nemendur í hópa og búa til Ted-klúbb. Mjög skemmtilegt og auðvelt að fela unglingum að vinna saman í Ted-ed klúbbum á Zoom. 

Miðstig 

 • Stuttir myndfundir með nemendum þar sem kennarinn tekur viðtöl við hvert og eitt og gerir áætlun fyrir viku í senn. Kennarinn hittir allan hópinn og síðan smærri hópa á hverjum degi. Lykillinn að góðum árangri með fjarkennslu á miðstigi er að einblína á viðfangsefni daglegs lífs og læsi. Læsisvefur Menntamálastofnunnar er stútfullur af góðu efni – að öllu öðru ólöstuðu er gamla og góða ritunarhandbókin Beinagrindur mjög aðgengileg og gott að nota á skjánum með nemendum. Gömlu góðu stílabækurnar eru mögnuð leið til þess að láta nemendur á miðstigi vinna í til að ná markmiðum sínum í bland við ritun á rafrænu formi. 
  • Ferðalög um Ísland eða til útlanda. Samþætting samfélagsfræði, náttúrufræði, íslenskuensku. Nemendur velja sér áfangastað og kennarinn aðstoðar nemendur við að sjá fyrir sér afraksturinn og byggir til dæmis á Ferlisritunhttps://laesisvefurinn.is/ritun/ferlisritun/ 
  • Heimsmarkmiðin. Anna María Kortsen Þorkelsdóttir hefur tekið saman heildstæð verkefni um heimsmarkmiðin. Þessum verkefnum má snara yfir í einstaklingsverkefni sem hver og einn nemandi vinnur til dæmis á einni viku. Hér væri hægt að einblína meira á mismunandi textategundir og ljúka vekefninu með því að nemendur kynna hvort fyrir öðru á skjánum í 5-10 barna hópum. 
  • 10 hugmyndir að heildstæðum verkefnum frá 1.-10. bekk með grunnþáttinn Lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi. Unnið af Tröppu ráðgjöf í samvinnu við MMS.
 • Heilsudagbók og markmið um hreyfingu og hollt mataræði þar sem nemandinn setur sér markmið i og metur eigin frammistöðu. Haldið utanum vinnuna annaðhvort á rafrænu formi eða í stílabók. 

Yngsta stig 

 • Stuttir einstaklings-myndfundir með nemendum og foreldrum þar sem gerð er áætlun fyrir vikuna og markmið sett fyrir hvern og einn. Best væri að kennarinn fundaði þrisvar sinnum í viku með nemendum og foreldrum ef mögulegt er að koma því við. 
 • Áhersla á lestur, lesskilning og ritun. Þegar barnið og kennarinn hittast á skjánum er mikilvægt að það sé barnið sem segi kennaranum frá því hvað það hefur verið að fást við heimavið. 
 • Um hvað langar mig að skrifa” er listi 24 ritunarhugmynda. Gott og aðgengilegt fyrir kennara og foreldra. 
 • Heildstæðar hugmyndir að verkefnum sem byggja á “Komdu og skoðaðu” bókaflokknum. 

Námskeið og stuðningur fyrir kennara 

Það er ekki víst að það gefist langur tími til að undirbúa fjarnám og kennslu nemenda ef að á allra næstu dögum verði sett á samkomubann og síðan skólahald lagt niður. Nú þurfa allir að leggjast á eitt til að nýta þá tækni sem fyrir er til þess halda uppi skólahaldi í einhverri mynd. Mögulega verður þessi krísa til þess að við þróum hratt með okkur starfhætti í fjarkennslu sem eru nemendamiðaðir og ekki síður skemmtilegir. Við hjá Tröppu ráðgjöf vonum það að minnsta kosti. Mögulega skapast líka góður tími fyrir kennara til að endumennta sig og þá er gott að vita af námskeiðum sem til dæmis Google for education og Microsoft Education bjóða upp á. 

Trappa ráðgjöf býður upp á fjölbreytta ráðgjöf fyrir skóla og stofnanir af öllu tagi og faglegan stuðning við sveitarstjórnir, fræðsluaðila, skólastjóra, kennara og foreldra. Trappa ráðgjöf býður skólaskrifstofu til leigu við útfærslu á lögbundnu skólastarfi, alhliða lausnir þar sem tæknin er höfð að leiðarljósi við að byggja undir einstaklingsmiðað nám, sérþekkingu á fjarkennsluverkefnum á grunnskólastigi og margt fleira. 

Kristrún Lind Birgisdóttir

Framkvæmdastjóri Ásgarðs (var Trappa ráðgjöf).

Akureyri 7. mars 2020 

(áður birt á bloggi Tröppu ráðgjafar)

Tengdar Greinar