LÆRVEST – Fær styrk frá Sprotasjóði

LÆR-VEST – Faglegt lærdómsamfélag skólastjórnenda, kennara og nemenda um leiðbeinandi nám í Patreksskóla, Tálknafjarðarskóla, Reykhólaskóla, Grunnskólanum á Hólmavík, Bíldudalsskóla og Grunnskólanum í Bolungarvík en verkefnið hlaut einn af stærstu styrkjum ársins við úthlutun Sprotasjóðs menntamálaráðuneytisins á dögunum. 

LÆR-VEST er faglegt lærdómsamfélag skólastjórnenda, kennara og nemenda um leiðbeinandi nám í sex grunnskólum á Vestfjörðum þar sem kennarar og nemendur vinna saman að því að tengja nám betur áhugasviði nemenda, auka eignarhald þeirra og færa námið nær leiðbeinandi kennsluháttum sem standast gæðaviðmið skólanna um nám og kennslu. Allir þátttökuskólarnir hafa sett sér gæðaviðmið um nám og kennslu sem til einföldunar kristallast í skilgreiningunni um “Leiðbeinandi kennsluhætti” sem er eftirfarandi, samkvæmt skilgreiningu matsmannanna Birnu Sigurjónsdóttur, Bjarkar Ólafsdóttur og Þóru Bjarkar Jónsdóttur (Gátlisti fyrir matsmenn fyrir ytra mat í grunnskólum, 2011). 

Leiðbeinandi kennslustund; Kennarinn stýrir framvindu kennslustunda en leggur áherslu á krefjandi spurningar og lausnaleit sem reynir á rökhugsun nemenda Áhersla er á námsferlið sem leið til náms frekar en námsefnið einvörðungu. Nemandinn er í forgrunni og hann er virkur í að athuga, rannsaka og draga ályktanir. Áhugi nemenda og forvitni er driffjöður námsathafna. Kennarinn skapar námsaðstæður og tækifæri nemenda til þátttöku, hann sér um að bjargir séu til staðar og veitir endurgjöf meðan á námi stendur.

Verkefnið gengur út á að koma auga á verkefni innan skólanna sem hópurinn er sammála um að falli að gæðaviðmiðum skólanna og skilgreiningunni um leiðbeinandi kennslustund eða sé mikilvægur liður í þeirri þróun að fjölga leiðbeinandi kennslustundum. Á reglulegum samstarfsfundum munu kennarar og nemendur koma fram og kynna fyrir hvort öðru í LÆR-VEST hvernig verkefnið fór fram og hvernig gekk. Kennarar munu síðan hittast og deila kennsluáætlunum, reynslu og göngum til þess að þeir geti nýtt verkefni annarra í sínum skólum. Á sameiginlegri heimasíðu LÆR-VEST verður gögnunum og kynningunum safnað saman fyrir aðra að nýta sér. 

Fyrsti fundur skólastjórnenda var haldinn í gær á skjánum en skólastjórnendur lögðu drög að starfsáætlun skólastjórnenda fyrir veturinn. Í næstu viku verður fyrsti fundur kennaranna. Við erum spennt og stolt að fá það mikilvæga hlutverk að draga þræðina saman og sjá til þess að áætlanir verði að veruleika.

Á myndinni eru Ásdís Snót skólastjóri Patreksskóla, Birna Hannesdóttir skólastjóri Tálknafjarðarskóla, Halldóra Dagný Sveinbjörnsdóttir skólastjóri Grunnskóla Bolungarvíkur, Anna Björg Ingadóttir skólastjóri Reykhólaskóla, Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir skólastjóri Grunnskóla Hólmavíkur og í horninu er Kristrún Lind Birgisdóttir ráðgjafi.

Kristrún Lind Birgisdóttir ráðgjafi

Tengdar Greinar