Íslenskuþjálfarinn

Frá því snemma árs 2019 hefur starfsfólk Tröppu ráðgjafar (nú Ásgarðs) unnið að því að þróa og prófa fjarnáms- og kennsluleið til þess að þjálfa fólk með annað tungumál en íslensku að móðurmáli í að tala íslensku. Hugmyndin var að bregðast þyrfti við aukinni eftirspurn eftir öðrum leiðum en hefðbundnum íslenskunámskeiðum sem byggja mikið til á bóklegu námi, til að styðja við fólk sem hingað sækir í auknum mæli með starfsháttum sem væru afslappaðir, byggðu ekki á málfræðikennslu og skriflegu námi nema að litlu leyti heldur samskiptum fyrst og fremst.

Mikilvægur hvati að verkefninu var einnig að nýta þá sérþekkingu sem býr í sérhverjum íbúa sem getur talað íslensku og að verið væri að skapa nútíma atvinnutækifæri óháð staðsetningu þar sem eina skilyrðið til að geta orðið íslenskuþjálfari væri einfaldlega að tala íslensku! Unnið er útfrá hugmyndafræði í tungumálakennslu sem byggir fyrst og fremst á samskiptum sem þjóna tilganginum að gera sig skiljanlega. Litið er svo á að málfræðilegar réttar setningar verði smán saman til og þróist í gegnum samskipti og leiðsagnarmat. Nemendur er í forgrunni og getustig þeirra og áhugamál ráða för í samskiptum. 

Allir ráðgjafar Tröppu sem komu að verkefninu hafa einhverntíman verið útlendingar sjálfir. Það var hópnum mikilvægt að geta haft þá meginhugsun að leiðarljósi að verkefnið væri fyrst og fremst vettvangur til þess að koma fólk saman til þess að æfa sig að tala og hópurinn sá sjálfan sig í aðstæðunum. Það var strax ákveðið að góð kennslufræði væri lykillinn að árangri, myndir og markviss samskipti og þáttaka nemendanna.

Á árinu hefur tekist að þróa fjórar sviðsmyndir þar sem íslenskuþjálfari nýtir myndir til þess að skapa umræður í fámennum hópi nemenda. Allt námskeiðið fer fram á skjánum þar sem nemendur eru staddir hver á sínum stað og íslenskuþjálfarinn líka. Námskeiðið er 40 stunda langt og nær yfir lengra tímabil en hefðbundin íslenskunámskeið. 

Tveir íslenskuþjálfara sjá nú um að leiða námskeiðin og gerður hefur verið þjónustusamningur við SIMEY á Akureyri um að bjóða námskeiðin þeim sem þangað geta sótt sína íslenskuþjálfun. Fyrirtæki og stofnanir geta hinsvegar leitað beint til Tröppu ráðgjafar þar sem gefinn er kostur á því að þróa og staðfæra námskeiðið að betur skilgreindari þörfum atvinnugreinarinnar. 

Við erum stolt yfir því að hafa lokið þessu verkefni. Sóknaráætlun Norðurlands eystra styrkti verkefnið um tvær milljónir króna sem komu sér afar vel við að prófa og þróa þetta mikilvæga efni.

Starfsfólk Ásgarðs (áður Tröppu ráðgjafar)

Tengdar Greinar