Lærissneið – Einangrun valgreina rofin

Betri heimabyggð - verkefni nemenda í Bolungarvík

Betri heimabyggð - verkefni nemenda í Bolungarvík

Lærissneið – Múrarnir rofnir

Við sem erum alin upp í fámennum grunnskólum vitum að það eru bæði kostir og gallar sem fylgja því að hrærast í fámennu skólasamfélagi. Kostnir eru yfirleitt mjög margir en það getur verið erfitt að koma til móts við fjölbreyttar þarfir barna til dæmis er varðar aðgang að valgreinum og sérhæfðari námsgreinar. Ég man eftir því að hafa klórað mér í hausnum yfir valgreinunum þegar ég var skólastjóri á Flateyri fyrir óralöngu síðan, hvernig í ósköpunum er hægt að bjóða upp á valgreinar við hæfi þegar nemendur á unglingastigi eru mögulega tólf eða færri í 8.-10 bekk? 

Á síðasta skólaári fengum við í Ásgarði veglegan styrk frá SSNE til þess að þróa kennslu í Skóla í skýjunum sem nýttist meðal annars í að útbúa miðlægt tvær valgreinar, önnur var tölvuleikjahönnun með Unity og hin var bókagerð. Nemendur úr níu skólum í þremur hópum komu saman á netinu yfir heila önn. Tilraunin heppnaðist vel og saman lærðum við, skólastjórnendur og kennarar mjög margt um nauðsynlegan aðbúnað og stuðning til þess að betur mætti fara næst. 

Um áramótin fengum við svo framhaldsstyrk til þess að þróa frekar valgreinaval þvert á fámenna skóla haustið 2022. Í samráði við skólastjórnendur nú í fjórtán skólum var ákveðið að gefa nemendum kost á að koma með tillögur að valgreinum og taka þátt í forvalskönnun þar sem við þrengdum hugmyndir þeirra úr 40 valgreinahugmyndum og niður í nítján. Nú hafa allir 160 nemendurnir valið og að öllum líkindum munum við geta boðið upp á allt að fjórtán valgreinarnar þar sem 95% af nemendum fá sitt fyrsta val. Við erum í skýjunum! Kökuskreytingar, íþróttaval, eðlis- og efnafræðival, kvikmyndagerð, franska, þýska, hljóðblöndun, kynjafræði, rafíþróttir, tölvuleikjahönnun og leiklist – svo eitthvað sé nefnt. Nemendur blandast greinilega inn í hópana og sem dæmi má nefna að krakkar úr fjórum ólíkum skólum velja sér eðlis- og efnafræði, eitthvað sem mjög erfitt hefði verið að sinna inni í hverjum skóla fyrir sig og er erfitt að sinna í fjölmennari skólum líka. 

Starfsfólk Ásgarðs og Skóla í skýjunum munu í sumar sjá um að setja námskeiðin upp í Valgreinaskólanum á Námsgagnatorginu. Kennarar koma úr þátttökuskólunum og eru ráðnir utan að ef að ekki næst að manna innan skólanna. Greiðslur og framlög skólanna fara í samlagspott sem verið er að móta. 

Ég þori að fullyrða að allir sem hafa komið að verkefninu hingað til eru að springa úr spenningi. Hér erum við í sameiningu að vinna að mjög mikilvægum byggðaverkefnum sem eru í raun svo mikilvæg að við efumst ekki um að áhrifin verða veruleg. Ef nemendur í fámennum skólum geta fengið reglubundin aðgang að valgreinum við hæfi og sérhæfðri ráðgjöf og þjónustu í gegnum netið – þá erum við að auka fjölbreytni, efla tengslanet nemenda, nýta sérþekkingu kennara þvert á sveitarfélög, auka stærðarhagkvæmni, styrkja og efla gæðastarf í grunnskólum og rjúfa félagslega einangrun. Ennfremur verður lögð áhersla á grunnþætti menntunnar, lykilhæfni nemenda og sköpun.

Kristrún Lind Birgisdóttir 

Eigandi og framkvæmdastjóri Ásgarðs

Samstarfsaðilar verkefnisins eru. Reykhólaskóli, Patreksskóli, Bíldudalsskóli, Tálknafjarðarskóli, Grunnskóli Bolungarvíkur, Grunnskóli Strandabyggðar, Hríseyjarskóli, Stórutjarnaskóli, Þingeyjarskóli, Reykjahlíðarskóli, Öxarfjarðarskóli, Grunnskóli Raufarhafnar, Skóli í skýjunum og Grunnskólinn á Þórshöfn. 

Tengdar Greinar