Viltu finna fjársjóð? Fjársjóðurinn býr innra með hverjum og einum

Fjársjóðsleit – að bregðast við skólaforðun og bráðgerum nemendum

6 vikna nemendastýrðar lotur þar sem nemendur vinna persónuleg heildstæð verkefni. Hverri lotu lýkur með nemendastýrðu foreldraviðtali. Við lok hverrar lotu metur nemandinn í samráði við kennara og foreldra hvert nemandinn stefnir, hvort hann vilji fara í aðra lotu – aftur í skólann sinn eða halda áfram að vinna að því að ljúka grunnskólanum í samvinnu við Ásgarð. Meginmarkmið er að nemandinn fari aftur í sinn heimaskóla og ljúki námi þar eða útskrifist þaðan. 

Lotan hefst á viðtali við kennara og náms- og starfsráðgjafa og kortlagningu styrkleika viðkomandi. Í upphafi hverrar lotu gera nemandi og kennari stöðumat (KVL) og við lok hverrar lotu er farið yfir framfarir og nemandinn orðar þá nýju hæfni og þekkingu sem hann hefur tileinkað sér. 

Námið fer alfarið fram á netinu nema að nemandinn sæki einhverja tíma í skólanum þá heldur það áfram. Nemandinn vinnur heima og þarf að hafa aðgang að tölvu með myndavél og helst góðri vinnuaðstöðu. Nemandinn vinnur að jafnaði með kennara og/eða öðrum nemendum á skjánum í tvær klukkustundir á dag, virka daga vikunnar. Nemandinn fylgir annars almennt skóladagatali þess skóla sem viðkomandi nemandi er skráður í. Almennt er gert ráð fyrir því að sá tími sé á morgnana en fyrirkomulagið er sveigjanlegt og unnið í samráði við nemendur. 

Hópastærðin er frá 1 og upp í 8 nemendur í senn sem stefnt er á að vinni saman og í sitthvoru lagi að verkefnum sínum. Nemendur eru undir öllum kringumstæðum skráðir í heimaskólann sinn. Samkomulag er gert á milli Ásgarðs og skólans sem greiða fyrir þjónustuna – í einhverjum tilvikum greiðir félagsþjónustan og stundum foreldrar. 

Áherslur Ásgarðs

Í Ásgarði er skólasamfélag sem vinnur að því með nemendum sínum og fjölskyldum þeirra að þeir verði færir um að vera virkir þegnar í nútímasamfélagi og geti lagt sitt af mörkum við að bæta heiminn. 

Í Ásgarði gera allir alltaf sitt besta. Við sýnum hvert öðru virðingu og látum til okkar taka við að gera umhverfi okkar og heiminn allan betri. 

Stefna Ásgarðs er að nemendur og starfsfólk: 

 • Séu forvitin og njóti þess að kafa ofan í  viðfangsefni sín  
 • Aðlagist síbreytilegum aðstæðum
 • Gefist ekki upp
 • Beri umhyggju fyrir sér og öðrum 
 • Ástundi góð samskipti og sýni virðingu í einu og öllu
 • Sýni tillitsemi við hvert annað og alla í umhverfi sínu 
 • Geti unnið sjálfstætt og með öðrum 

Í Ásgarði er sérstaklega lagt upp með að líta á heiminn sem eina heild, bera virðingu fyrir íbúum alheimsþorpsins, menningu allra, stjórnmálum,  tungumálum og listum.

Kennslufræðileg stefna 

Starfsfólk Ásgarðs hefur sett sér það markmið að bjóða upp á framúrskarandi námskeið og tryggja meðal annars að fjölbreyttir kennsluhættir og námsmat birtist með skýrum hætti í starfi með nemendum. Kennarar hafa sett sér viðmið um hlutfall mismunandi kennsluhátta og námsmats til að mæta sem best fjölbreyttum þörfum nemenda.

Í Ásgarði hefur verið ákveðið að byggja á að mestu á aðferðum IMYC námskrárinnar þar sem námsferlið byggir á samþættingu námsgreina og eftirfarandi rannsóknarferli. Námið grundvallast á þemum og samþættingu námsgreina. 

Fieldwork Education: 2020

Persónumiðað nám 

Kennarar í Ásgarði hafa einsett sér að skara fram úr við útfærslu persónumiðaðs náms. 

 • Lagt er út frá sama þema fyrir alla en viðfangsefnin eru mismunandi eftir áhuga og/eða getu nemenda
 • Nemendur gera áætlanir í samvinnu við kennara og foreldra með markmiðum fyrir hverja námslotu eða tímabil
 • Námsaðferðir eru í samhengi við markmið hvers og eins nemanda sem smám saman fara að þekkja eigin námsstíl
 • Hópaskipting er fjölbreytt og áhersla lögð á samvinnu jafnt sem sjálfstæð vinnubrögð
 • Námsmat er að mestu leyti  einstaklingsmiðað og nemendur er virkir þátttakendur í því
 • Fylgst er vandlega með framförum hvers og eins og brugðist við ef framfarir teljast óeðlilegar.

Kennarar styðjast við matstæki GGÓ um starfshætti í anda hugmynda um einstaklingsmiðað nám, lýðræðislegt og nemendamiðað skólastarf og lærdómssamfélag. Stefnan er að mælast ávallt á 5. stigi. 

(Byggt á Matstæki GGÓ frá 2018; Reykjavíkurborg, kennara og nemendastoð, birtist meðal annars hér)

Uppeldisfræðileg stefna 

Hin óyggjandi vitneskja um að nám fari stöðugt fram er í senn uppeldisfræðileg og kennslufræðileg stefna Ásgarðs. Vaxtarhugarfar er ríkjandi á öllum stigum í starfsemi Ásgarðs. Það er sérstakt markmið að nemendur og kennarar tileinki sér vaxtarhugarfar og hafi trú á því að æfingin skapi meistarann og að kennarar og foreldrar tileinki sér að styðja við og horfa á námsferlið sem sigur í sjálfu sér. Mistök eru mikilvæg til að læra af og við hvetjum hvert annað til að taka áhættu. Ásgarður er öruggur staður til að gera tilraunir, viðra skoðanir sínar og vaxa. Við þetta styðja fjölbreyttir kennsluhættir þar sem gert er ráð fyrir sjálfstæði og samvinnu í vinnubrögðum.

Í Ásgarði er áhersla á vaxtarhugarfar með megináherslu á stuðning við jákvæða hegðun. Misbrest á hegðun er leitast við að leiðrétta með leiðum sem einkennast af umhyggju, virðingu, reisn og festu.

Það er skýr stefna Ásgarðs að komið sé fram við alla af virðingu og að allir hafi jafnan rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Lögð er megináhersla á að allir geri sitt besta og leggi sig fram um að bæta eigið umhverfi sem og líf sitt og annarra. 

Vaxtarhugarfar og námsmenning leiðsagnarmats  á að einkenna starfshætti Ásgarðs, að skólasamfélagið hafi trú á því að við séum öll stöðugt að bæta okkur með því að takast á við áskoranir.

Með því að nemendum sé mætt þar sem þeir eru staddir og með því að  þeir upplifi traust og hvatningu til að taka taka þátt í starfinu í Ásgarði eykur starfsfólkið líkur á því að gagnkvæm virðing og jákvæðni verði einkennandi í samskiptum starfsfólks og nemenda. 

Staður margbreytileikans

Í Ásgarði eru allir jafnir og nemendur hvorki aðgreindir vegna aldurs, kyns, uppruna eða með nokkrum öðrum hætti. Allir nemendur hafa þarfir og tekið er tillit til þeirra – engar þarfir eru “sér” þarfir – eða allar þarfir eru sérþarfir. Námið er sniðið að þörfum hvers og eins. 

Nemendur vinna í teymum eða sjálfstætt en er ekki skipt í bekki. Nemendur gera sínar eigin námsáætlanir í samvinnu og samstarfi við kennara sína og foreldra. Viðfangsefnin stjórnast af grunnþáttum og þemum en nánari útfærslur eru alltaf í höndum nemenda.

Það er lykilatriði að allir nemendur bæti sig sem námsmenn og verði í hverju skrefi hæfari til að  bera vaxandi ábyrgð á námi sínu og smám saman skipulagt það af eigin rammleik. Með hverju skrefi nálgast nemandinn hæfni til að hefja nám í framhaldsskóla. Ásgarður er öruggt umhverfi sem gerir nemendum kleift að æfa sig sem sjálfstæðir námsmenn og fá að taka örugg skref út í lífið með viðfangsefnum sem henta hverjum og einum.

Kennarar og ráðgjafateymi Ásgarðs 

Aðalkennari unglinganna er Soffía Pálmadóttir. Soffía hefur fjórtán ára reynslu af því að vinna með unglingum sem vilja fara sínar eigin leiðir og aðstoða tugi við að finna nýjan farveg. 

Ráðgjafa- og kennarateymi Ásgarðs hefur víðtæka reynslu af kennsluráðgjöf og hugmyndir og reynslu af fjölbreyttum leiðum við að styðja við nám. 

Frá árinu 2017 hafa kennarar og sérfræðingar í Ásgarði kennt fámennum nemendahópum alfarið á netinu með þeim áherslum sem farið er yfir hér að ofan með góðum árangri. Árangurinn miðast við hvern og einn nemanda, hvaða framfarir viðkomandi hefur tekið og hvort markmiðum hans hefur verið náð. 

“Ég veit ekki hvaða galdrakonur þetta eru – en ég veit að þær hafa unnið kraftaverk á nemendum sínum” Ragnhildur Jónsdóttir fræðslustjóri sveitarfélaginu Hornafirði á fundi fræðslustjóra á Íslandi haustið 2020.

Nánari upplýsingar veitir Kristrún Lind Birgisdóttir – eigandi og framkvæmdastjóri Ásgarðs – kristrun@ais.is, +354-8999063

Tengdar Greinar