Mælum læsi saman!

Heilmikil umræða hefur átt sér stað um stöðu barna og íslensku skólana. Tölur um læsi fara áfram hnignandi, ádeila á leshraðapróf eykst og töluverðar upphrópanir viðhafðar almennt um ómögulegt skólastarf. Við í Ásgarði vinnum alla daga að því að styðja kennara og skólastjórnendur og stundum sveitastjórnarmenn í því að finna leiðir til þess að bæta almenna kennslu og skólastarf. Skólastjórnendur í tugavís og kennarar í hundraðavís ígrunda á hverjum degi hvað má betur fara og hvaða leiðir eru færar til þess að bæta stöðuna – það getum við staðfest. En rétt er að það má gera betur. 

Samkvæmt þeim mælingum sem við nýtum okkur er staða fjölmargra barna og þá sérstaklega drengja komin að þolmörkum og það er óviðunandi. Við getum nefnilega öll brugðist við núna – það er engin ástæða til að bíða – við getum öll brugðist við strax, ekki bara kennararnir – heldur foreldrarnir og samfélagið allt. Læsi er íslenskan, læsi er samskipti, ritun, samræða og tjáning sem við getum öll eflt í daglegum samskiptum okkar við börn. 

Fyrir nokkrum árum var gerð læsisstefna fyrir Akureyrarbæ sem heitir “Læsi er lykillinn,, – þeirri stefnu fylgja viðmið um færniþætti barna í læsi og þar er framförum skipt í sex stig. Það þurfa ekki öll börn að komast á sjötta stig en til þess að teljast tæknilega læs þá þarf að ná ákveðinni grunnfærni. Ef gloppur finnast þá þarf að stoppa í þau göt annað hvort með hjálpartækjum eða reglubundinni þjálfun. 

Ef við vitum öll hver mælanleg markmið eru þá getum við sameinast um að mæla og þjálfa læsi, með börnunum okkar í skólunum, í sjoppunni og í daglegum samskiptum við börn og ungmenni. Þau þurfa þjálfun alla daga og tækifæri til að æfa sig og sýna framfarir í öruggu umhverfi – sama hvert þeirra upprunalega móðurmál er. 

Mælitækið er ekki flókið, þetta er töflureiknisskjal (Sheet) sem allir geta tekið afrit af og gert að sínu, bæði kennarar og foreldrar, ömmur og afar. Það tekur smá tíma að fylla í heildarstöðuna. Það þarf að fá börnin til að skrifa eitthvað, ræða við þau, lesa með þeim og fá þau til að lesa fyrir okkur til þess að merkja stöðuna en það er ekki flókið mál. Þegar niðurstaðan er ljós er ljóst hvaða þætti þarf að efla og þá er hægt að æfa heima og í skólanum með lestri, samskiptum og skemmtilegum skrifum í stílabók eða á tölvu. Með þessu eruð þið að laumast til að mæla – það er engin ástæða til þess að börnin viti hvað þið eruð að gera – þið sem foreldrar eða kennarar eruð að efla læsi en mæla í leiðinni.  

Hjálpumst öll að og þà getum við undið ofan af þessari stöðu. Spjöllum og mælum læsi – skrifum jólakort og segjum frèttir ársins/fjölskyldusöguna með börnunum og eflum þau í leiðinni.

Læsi er lykillinn heimasíða

Læsi er lykillinn matsblað – Mælitæki læsis (taka afrit/hlaða niður til að sjá felliglugga)

Kristrún Lind Birgisdóttir 

Eigandi og framkvæmdastjóri Ásgarðs 

www.ais.is 

kristrun@ais.is 

Tengdar Greinar