Látum tannhjólin snúast!

Tannhjólið

Í vor fengum við í Ásgarði styrk frá SSNE til að vinna kennsluáætlun eða handbók fyrir kennara til að stuðla að því að auka vægi verkgreina og valgreina í grunnskólum með samþættinu og sköpun. Tannhjólið átti reyndar upprunalega að heita Frostrósin en sem vék fyrir betra nafni. Nú er fyrsta útgáfan af Tannhjólinu tilbúin og ráðgjafarnir okkar eru nú að kynna þátttökuskólunum handbókina en þær munu síðan handleiða kennara við að framkvæma verkið með nemendum sínum. Þær Elín Elísabet Magnúsdóttir og Esther Ösp Valdimarsdóttir hafa unnið handbókina og munu einning sjá um handleiðsluna.

Tannhjólið er rammi utan um námsferil þar sem nemendur hanna og útfæra sína eigin valgrein eða verkefni í hóp. Hugmyndafræðin byggir á hugmyndum um Forvitnimiðað nám (e. Inquiry based learning) og sköpunarnám (e. Maker centered learning) og stuðst er fyrst og fremst við hönnunarhugsun (e. Design thinking). Unnið er út frá grunnþættinum sköpun og hæfniviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla. Miðpunkturinn er að nemendur hanni og útbúi sína eigin afurð og verði í ferlinu rannsakendur, hönnuðir, uppfinningamenn, framleiðendur og seljendur sinnar eigin vöru. Í ferlinu er gert ráð fyrir að nemandi leiti sér leiðsagnar hjá aðila sem hefur þekkingu sem nýtist nemanda. Miðað er við að leitað sé grænna leiða og efniviður endurunninn eins og frekast er unnt.

Í handbókinni er allt sem þarf búið er að lista upp hæfniviðmið, tímaramma og námsferlið allt. Bara byrja! Öll skjölin er hægt að hlaða niður og gera að sínum.

Markmið með Tannhjólinu

Að nemendur:

  • Læri að móta sér markmið og standa við það
  • Dýpki skilning sinn á málefni á eigin áhugasviði
  • Þrói með sér sjálfstæð vinnubrögð
  • Verði leiðtogar í eigin námi
  • Temji sér að nota styrkleika sína sér til framdráttar
  • Geti greint frá uppgötvunum sínum, reynslu og upplifunum
  • Fylgi hugmynd eftir og raungeri hana sem afurð til birtingar/kynningar og umfjöllunar

Öllum er velkomið að nýta sér Tannhjólið og við hvetjum til þess að allir nýti sér efnið í heild sinni eða eitthvað úr því.

Gangi ykkur vel

Ráðgjafar Ásgarðs

Handbók í heild sinni hér – bara smella og afrita til að nýta.

Veggspjald til útprentunar hér fyrir neðan

Tengdar Greinar