A, B, C….. Sprengjugerð!

Af hverju er ekki hægt að gefa einkunnir í tölustöfum lengur? Er A það sama og 10? Er hægt að fá A? Er hægt að nota bæði bókstafi og tölustafi við námsmat?

Nei, það er ekki hægt að umreikna tölulegt námsmat yfir í hæfnimiðað nám og námsmat. Og til þess að útskýra málið skulum við tala um sprengjugerð.

Í hefðbundinni bekkjarkennslu myndi kennarinn halda fyrirlestur um sprengjugerð og nemendur væru með námsbók þar sem fjallað er um það hvernig á að gera sprengju. Kennarinn myndi fara vandlega yfir efnið og nemendum væri ljóst hvað þau þyrftu að vita áður en hann leggur fyrir þau próf. Hann tekur nokkra tíma í viðfangsefnið og umræður fara fram. Síðan leggur hann fyrir próf, engin samvinna né hjálpargögn. Ef nemandinn svarar 9 atriðum af 10 réttum þá fær sá hinn sami 9.0 á prófinu. Þetta er einfalda útgáfan af þekkingamiðaðri kennslu og námsmati.

Árið 2011 breyttist Aðalnámskráin og nú er okkur uppálagt að auka hlutfall fjölbreyttra kennsluhátta og námsmats –  og færa okkur í auknum mæli yfir í hæfnimiðað kennslu og nám. Það þýðir að ef sami kennari væri að kenna sprengjugerð með hæfnimarkmiðið að leiðarljósi “Að nemandi sé hæfur um að búa til sprengju og sprengja hana” – þá myndi hann jafnvel skipta nemendum í hópa eftir kyni, tvær og tvær stelpur saman og tveir og tveir strákar saman. Hann myndi byrja á því að segja þeim hvað þau ætla að læra í kennslustundinni og kynna þeim hvaða hæfnimarkmið stæði til að vinna með.

Hóparnir myndu síðan fara og viða að sér fjölbreyttu efni til sprengjugerðar, öll hjálpargögn leyfð og hafa mætti samband við sérfræðinga. Langflestir hóparnir myndu leysa verkefnið saman og raunverulega setja saman sprengjuna og sprengja hana. Sumar sprengjurnar myndu springa með miklum hvelli en aðrar með litlum hvelli. Sumir myndu jafnvel þurfa tvær tilraunir þar til verkið heppnaðist.

  • Allir sem kæmust yfir að klára verkefnið, gætu fundið upplýsingarnar, mælt efnið og sprengt sprengjuna fá Bhæfni náð.
  • Hópurinn sem býr til risa sprengju sem springur í lofthjúpnum og dreifir galdradufti yfir heiminn sem verður til þess að stríð geisa aldrei aftur – sá hópur fær A. Árangur umfram væntingar – hæfni náð og meira en það.
  • Hópurinn sem reyndi að lesa sér til skilnings og mæla en gat engan vegin komið sprengjunni saman fær – færni á góðri leið C.
  • Hópurinn sem gerði ekkert í tímanum, tók ekki þátt og gerði enga tilraun til þess að vera með – sá hópur fær D.
  • Hæfnimiðað nám er þrívítt og felur í sér þekkingu á efninu, leikni til að púsla þekkingunni saman og hæfni til að skapa – stundum langt umfram væntingar.

Sprengjugerð er kannski ekki besta dæmið en ég vona að sem flestir geti yfirfært þennan fróðleiksmola yfir á það sem börnin þeirra eru að fást við og yfir á heppilegri verkefni. Mikilvægt er að átta sig á að fyrirgjöf í bókstöfum á ekki að vera fyrir ástundun – heldur hvort hæfni séð náð eða ekki. Ástunduninni þarf að halda kirfilega sér.

Með þessu er samt ekki verið að segja að það megi ekki nota próf sem hluta af námsmati – en þá er enn eftir að meta hinar tvær hliðarnar í þrívíðu námsmati.

Kristrún Lind Birgisdóttir
Framkvæmdastjóri og eigandi Ásgarðs

Áður birt á trappa.is fyrir nafnabreytingu

Tengdar Greinar